fbpx
Mynd: Helgi Viðar Hilmarsson

Óverðskuldað tap í Kaplakrika

Mynd: Helgi Viðar Hilmarsson
Mynd: Helgi Viðar Hilmarsson

FRAM mátti í kvöld sætta sig við tap gegn FH, 1-2, í tíundu umferð Pepsideildar karla í knattspyrnu, en leikið var í Kaplakrika í Hafnarfirði.  Sárgrætileg færanýting reyndist dýrkeypt og sigurmarkið, sem skorað var níu mínútum fyrir leikslok, var kolólöglegt.

FH 2-1 FRAM (1-0)
1-0  Halldór Arnarsson (sjm.) 24.mín.
1-1  Almarr Ormarsson 71.mín.
2-1  Atli Guðnason 81.mín.

Bölvanlega hefði gengið að meta stigafjölda og deildarstöðu liðanna sem öttu kappi á Kaplakrikavelli út frá frammistöðunni í kvöld.  FRAMarar hófu leikinn af dágóðum krafti og fengu eigi færri en þrjú úrvalsgóð marktækifæri á fyrstu mínútunum, en einu sinni sem oftar gekk brösuglega að nýta þessi færi.  Spilið var lengstum ágætt, baráttan og viljinn til hreinnar fyrirmyndar, en menn áttu það til að skilja eftir opin svæði þegar sóknarhugurinn varð yfirþyrmandi og FH-ingar kunna slíkt að meta.  Sóknarlotur FH-ingar voru beinskeyttar, en marktækifærin færri en andstæðinganna.  Eina mark fyrri hálfleiks kom upp úr hornspyrnu; Björn Daníel Sverrisson smellti enninu í boltann og þaðan hrökk hann í Halldór Arnarsson, breytti um stefnu og endaði í netinu.  Ekki var við Halldór að sakast, hann var einfaldlega óheppinn.
FH-ingar voru frískari framan af síðari hálfleik, bláir voru þó ekki jafn gjarnir á að hlaupa út úr stöðum og skilja eftir athafnasvæði fyrir hugumstóra og fótfráa vængmenn FH og þótt heimamenn hafi verið meira með boltann skapaðist sjaldan hætta uppi við markið.  Jöfnunarmark FRAM var snoturt; Jordan Halsman hreinlega sótti aukaspyrnu til móts við vítateig FH af kænsku og útsjónarsemi og Steven Lennon skilaði spyrnunni í kjörstöðu fyrir Almarr Ormarsson.  Almarr nýtti sér gönuhlaup Róberts markvarðar og skallaði glæsilega í netið.  Vart mátti á milli liðanna sjá á lokamínútunum, en markið sem réði úrslitum var skorað níu mínútum fyrir leikslok og hefði aldrei átt að standa.  Atli Guðnason var rangstæður þar sem hann var búinn að planta skrifborðinu sínu við fjærstöng og fékk sendingu inn fyrir vörnina frá Ingimundi Níels Óskarssyni.  Atli skallaði boltann af stóiskri ró í netið og tryggði þar með Íslandsmeisturunum þrjú stig.

Um sanngirni þessara úrslita má deila fram að súrefnisskorti, frammistaða FRAMara í kvöld verðskuldaði einfaldlega meira en dágóða líkamsrækt.  Leikur liðsins var ekki gallalaus, stundum hefði hann mátt vera áræðnari og beinskeyttari, en á löngum köflum voru FRAMarar betri aðilinn, þeir fengu fleiri færi og fá stóran plús í kladdann fyrir baráttu og vilja.

Leikskýrslan.

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!