FRAM heimsækir Gróttu í síðasta leik 8-liða úrslita Borgunarbikarkeppni karla í knattspyrnu í kvöld, en flautað verður til leiks á Gróttuvelli klukkan 19.15. KR, Stjarnan og Breiðablik tryggðu sér í gærkvöldi sæti í undanúrslitum keppninnar og í kvöld bætist fjórða og síðasta liðið í pottinn.
Þetta er aðeins í annað sinn sem FRAM og Grótta mætast í kappleik á vegum KSÍ. Liðin áttust við í Visabikarkeppninni sem þá var og hét í júní 2004. FRAM hafði sigur á Laugardalsvelli 4-0 og skoruðu Fróði Benjaminsen, Ómar Hákonarson, Heiðar Geir Júlíusson og Kristján Brooks mörk FRAMara, sem léku undir stjórn Ion Geolgau og skörtuðu m.a. Ríkharði Daðasyni í byrjunarliði og Daða Guðmundssyni á bekknum.
Grótta situr sem stendur í sjötta sæti 2.deildar karla, hefur unnið fimm af níu leikjum sínum, gert eitt jafntefli og tapað fjórum leikjum. Markatalan er 11-10. Grótta hefur spilað fjóra heimaleiki í deildinni, unnið tvo þeirra, gert eitt jafntefli og tapað einum. Eina liðið sem fagnað hefur þar útisigri er HK.
Grótta hefur spilað þrjá heimaleiki og einn útileik í Borgunarbikarkeppninni. Seltirningar hafa unnið KH, Hött og Magna á heimavelli og Stál-Úlf á útivelli.
FRAM situr í áttunda sæti Pepsideildar karla, hefur unnið þrjá af tíu leikjum sínum, gert þrjú jafntefli og tapað fjórum leikjum. Markatalan er 12-12. Árangurinn á útivelli hljóðar upp á tvo sigra, eitt jafntefli og þrjú töp. Sigurleikirnir tveir eru gegn Víkingi og Keflavík.
FRAM hefur spilað báða bikarleiki sína til þessa á útivelli, vann Val 2-1 og Víking 6-5 eftir vítaspyrnukeppni.
Við hvetjum að sjálfsögðu FRAMara nær og fjær til að fjölmenna á Gróttuvöllinn í kvöld og láta vel í sér heyra. Sæti í undanúrslitum Borgunarbikarkeppninnar er í húfi og stuðningurinn er mikilvægur.