fbpx
MFKA_2013-576fors

Framlenging á Nesinu og sigurmark í blálokin

MFKA_2013-576
Mynd: Helgi Viðar Hilmarsson

FRAM hafði í kvöld betur gegn Gróttu, 2-1, í framlengdum leik í 8-liða úrslitum Borgunarbikarkeppni karla í knattspyrnu og á því sæti í undanúrslitum keppninnar ásamt KR, Stjörnunni og Breiðabliki.  Steven Lennon tryggði dýrmætan og torsóttan sigur með marki úr vítaspyrnu einni mínútu fyrir lok framlengingar.

Grótta 1-2 FRAM (0-1; 1-1)
0-1  Almarr Ormarsson 23.mín.
1-1  Jónmundur Grétarsson 79.mín.
1-2  Steven Lennon (vsp.) 119.mín.

Leikurinn á Gróttuvelli spilaðist um margt eins og við var að búast; FRAMarar voru meira með boltann og stjórnuðu umferðinni á meðan heimamenn lögðu mesta áherslu á stöndugan og dugandi varnarleik og gerðu það býsna vel.  Skipulagið á varnarleik Gróttumanna var til hreinnar fyrirmyndar, afskaplega fáar gloppur á varnarvegg sem á löngum köflum var tvöfaldur og háar sendingar inn á teiginn voru afgreiddar eins og nýbakaðar pönnukökur á morgunverðarborði meistaranna.  FRAMarar voru talsvert meira með boltann og hjuggu nokkrum sinnum í þennan varnarmúr, en allmargar tilraunir þeirra fóru þó forgörðum og virkuðu máttleysislegar.  Almarr Ormarsson kann vel við sig í Borgunarbikarkeppninni og hélt í þá hefð sína að skora í hverri umferð; hann kom FRÖMurum yfir með laglegu marki á 23.mínútu, kláraði ágætt hlaup inn í átt að fjærstönginni og afgreiddi skallabolta Hólmberts af öryggi í netið.  Gróttumenn sýndu klærnar í sókninni, þótt ekki hafi þeir beinlínis vaðið í færum eða lagt mikla áherslu á að fjölmenna fram á við, en þeir sýndu þó ágæta takta sem eftir á að hyggja hefðu átt að virka sem ágætis aðvörun.

Fátt benti til annars framan af síðari hálfleik en að FRAMarar myndu landa sigri, ekkert sérlega fögrum, en dýrmætum og torsóttum.  Þeir sóttu talsvert og voru á stundum hársbreidd frá því að finna glufur á Gróttuvörninni, en virtist brugðið þegar heimamenn jöfnuðu metin.  Jónmundur Grétarsson teygði sig í boltann í miklum gauragangi inni á markteignum og mokaði honum yfir línuna, 1-1.  Ekki tókst að bæta við mörkum áður en flautað var til loka venjulegs leiktíma, engin sérstök tilþrif í þá átt reyndar, og þá varð að grípa til framlengingar.
Framlengingin var að flestu leyti keimlík mínútunum níutíu sem að baki voru, agaður og skipulagður varnarleikur heimamanna reyndist erfiður við að eiga og áhorfendur voru flestir farnir að setja sig í stellingar fyrir vítaspyrnukeppni þegar sigurmarkið skaut upp kollinum á ögurstundu.  Varamaðurinn Aron Þórður Albertsson skeiðaði þá inn á vítateiginn hægra megin, var felldur með tilþrifum og vítaspyrna óumflýjanleg.  Steven Lennon var öryggið uppmálað og skoraði af miklu öryggi úr spyrnunni, 2-1 fyrir FRAM.

FRAM er komið í undanúrslit Borgunarbikarkeppni karla ásamt KR, Stjörnunni og Breiðabliki.  Dregið verður til undanúrslita í hádeginu á morgun, þriðjudag.

Leikskýrslan.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!