Meistaraflokkslið FRAM í knattspyrnu standa bæði í stórræðum þessa helgina. Kvennaliðið fer til Ísafjarðar og etur þar kappi við BÍ/Bolungarvík í 1.deildinni á laugardag og piltarnir taka á móti KR í Pepsideildinni á sunnudagskvöld. Athygli er vakin á breyttum leiktíma, en flautað verður til leiks í Laugardalnum klukkan 21.
BÍ/Bolungarvík – FRAM | Torfnesvöllur | Laugardagur 13.júlí kl. 14.00
Þetta er í annað sinn á þessari leiktíð sem “skástrikið” og FRAM mætast í 1.deildinni, en Strandakonur unnu fyrri leikinn í fyrstu umferðinni 3-0. Leiksins verður líklega minnst um ókomna tíð sem “leiks hinna glötuðu marktækifæra”; úrslitin gefa engan veginn rétta mynd af gangi mála.
Liðin mættust í tvígang í deildinni í fyrra og FRAM fagnaði sigri í báðum leikjunum. Fyrri leikurinn, fyrsta viðureign liðanna frá upphafi, fór fram á Torfnesvellinum í júní og lauk konum með sigri FRAM, 4-0. FRAM vann síðari leikinn í Úlfarsárdalnum í ágúst 4-1.
FRAM situr sem stendur í fimmta sæti A-riðils 1.deildar kvenna með 13 stig eftir níu leiki; fjóra sigra, eitt jafntefli og fjögur töp. FRAM hefur jafnmörg stig og Haukar, er stigi á eftir Álftanesi og níu stigum á eftir toppliðum ÍA og Fylkis, sem á leik til góða. BÍ/Bolungarvík situr í áttunda og næstneðsta sæti með 5 stig eftir níu leiki; einn sigur (gegn FRAM), tvö jafntefli og sex tapleiki.
FRAM – KR | Laugardalsvöllur | Sunnudagur 14.júlí kl. 21.00
Topplið KR heimsækir Laugardalinn á sunnudagskvöldið og á möguleika á að auka forskot sitt á toppi Pepsideildinnar. Vesturbæingar hafa sem stendur tveggja stiga forystu á FH og Stjörnuna, eiga leik til góða á Garðbæinga og tvo leiki á Hafnfirðinga. FRAM situr í áttunda sæti, þrettán stigum á eftir toppliði KR.
FRAM hefur ekkert vegnað neitt sérstaklega gegn KR undanfarin misseri og löngu orðið tímabært að snúa þeirri þróun til betri vegar. Uppskeran í síðustu sjö leikjum er eitt stig og það vannst í jafntefli á KR-vellinum í ágúst í fyrra, 1-1. Þar með var endir bundinn á sjö leikja sigurgöngu KR gegn FRAM, hrinu sem teygir sig aftur til júní 2009. Þá hafði FRAM betur gegn KR á Laugardalsvelli með tveimur mörkum Hjálmars Þórarinssonar og einu marki Almarrs Ormarssonar, 3-0. Það er síðasti deildarsigur FRAM gegn KR, en bláir höfðu reyndar betur gegn þeim svart-hvítu í Visabikarnum í september þetta sama ár, 1-0. Joe Tillen skoraði eina markið í þeim leik.
KR hefur unnið átta af níu deildarleikjum sínum á þessari leiktíð, eina jafnteflið var gegn Blikum í fimmtu umferð. KR-ingar fengu aðeins á sig eitt mark í fjórum fyrstu umferðum Pepsideildarinnar, gegn Stjörnunni í fyrstu umferð, en þeir hafa ekki haldið hreinu síðan í fjórðu umferð og hafa fengið á sig sjö mörk í fjórum síðustu leikjum sínum (tvö gegn FH og ÍA, eitt gegn Víkingi og tvö gegn Fylki). Í þessum fjórum leikjum hafa þeir hins vegar skorað þrettán mörk og fagnað sigri í þeim öllum (fjögur gegn FH og ÍA, tvö gegn Víkingi, þrjú gegn Fylki).
FRAMarar hafa uppskorið fjögur stig í fjórum síðustu leikjum; sigur gegn Þór, jafntefli gegn Breiðabliki og tapleikir gegn ÍBV og FH. FRAM hefur í þessum fjórum leikjum skorað sex mörk (fjögur gegn Þór, eitt gegn Breiðabliki og eitt gegn FH), en fengið á sig fimm (eitt gegn Þór, ÍBV og Breiðabliki og tvö gegn FH).