fbpx
vba2 - fotbn - fors

Sérlega glæsilegur og dísætur sigur á KR

vba2 - fotbn
Mynd: Hafliði Breiðfjörð/Fótbolti.net

FRAM varð í kvöld fyrst allra liða til að leggja topplið KR að velli í Pepsideild karla í knattspyrnu, en frísklegir FRAMarar fögnuðu sigri í viðureign liðanna á Laugardalsvelli, 2-1.  Hólmbert Aron Friðjónsson og Kristinn Ingi Halldórsson skoruðu mörk FRAM í leiknum.

FRAM 2-1 KR (1-0)
1-0  Hólmbert Aron Friðjónsson 25.mín.
1-1  Haukur Heiðar Hauksson 65.mín.
2-1  Kristinn Ingi Halldórsson 75.mín.

Þegar flautað var til leiks á Laugardalsvellinum í kvöld vofði sú óspennandi staðreynd yfir heimamönnum að uppskeran úr átta síðustu leikjunum gegn KR var eitt stig.  Það vannst á þessum sama velli á síðustu leiktíð, en síðasti sigur gegn KR vannst í júní 2009.  Þessi tölfræði var þó lítið að flækjast fyrir leikmönnum FRAM í kvöld, þeir voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og léku á köflum ljómandi vel.  Þrjú dauðafæri litu dagsins ljós, en aðeins eitt þeirra skilaði þó marki, sem Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði eftir laglegan undirbúning Almarrs Ormarssonar upp úr hálfleiknum miðjum.  Þar fyrir utan fengu Haukur Baldvinsson og Steven Lennon fín færi, sem á sérlega góðum degi hefðu skilað mörkum.
Staðan í hálfleik var 1-0 og líklega hefur einhverjum stuðningsmönnum FRAM verið órótt; liðið hefur nokkrum sinnum í sumar haft yfirburði í fyrri hálfleik án þess að nýta þá til fullnustu og misst dampinn í síðari hálfleik.  KR-ingar mættu grimmir til síðari hálfleiks, héldu uppi nokkuð stöndugri pressu og uppskáru mark eftir tuttugu mínútna leik.  Haukur Heiðar Hauksson skoraði eftir hornspyrnu, nokkuð átakalítið og einfalt mark að því er virtist.  FRAMarar gáfust þó ekki upp, héldu ágætlega aftur af gestunum og skoruðu markið sem réði úrslitum korteri fyrir leikslok.  Sam Hewson átti ákaflega laglega sendingu inn fyrir vörn KR, varamaðurinn Kristinn Ingi Halldórsson skeiðaði fram úr röndóttum varnarmönnum af mikilli lipurð og potaði boltanum framhjá Hannesi markverði sem kom út á móti.  Það verður að teljast sérlega ánægjulegt að sjá Kristin Inga, sem skoraði grimmt á síðustu leiktíð en hefur verið meiðslum hrjáðum, stimpla sig inn með svo eftirminnilegum hætti.  KR-ingar sóttu nokkuð stíft á lokakaflanum og framkölluðu nokkur andköf, en urðu að lokum að sætta sig við tap í fyrsta sinn í sumar.

Frammistaða FRAMdrengjanna, allra með tölu,  var til fyrirmyndar.  Jón Gunnar kom inn í miðja vörnina og stóð sig með prýði, Viktor Bjarki var öflugur, einkum í fyrri hálfleik og Almarr og Hólmbert alltaf líklegir til að skapa usla, svo fátt eitt sé nefnt.  Benedikt Októ gladdi mjög með frammistöðu sinni, en hann kom inn í bakvarðarstöðuna í upphafi síðari hálfleiks vegna meiðsla Ólafs Arnar og Alan færði sig í miðvarðarstöðuna.  Ef útnefna ætti mann leiksins stæði þó valið líklega á milli Sam Hewson og Ögmundar Kristinssonar.  Sam stýrði umferðinni á miðjunni, vann eins og þindarlaus maður, og Ögmundur sýndi það og sannaði að hann er besti markvörðurinn í deildinni…og jafnvel þótt víðar væri leitað.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!