fbpx
MFKA_2013-579-fors

FRAM tekur á móti Víkingi | Kveðjuleikur Steven Lennon

Mynd: Helgi Viðar Hilmarsson
Mynd: Helgi Viðar Hilmarsson

FRAM tekur í kvöld á móti Víkingi frá Ólafsvík í lokaleik tólftu umferðar Pepsideildar karla í knattspyrnu og verður flautað til leiks á Laugardalsvelli klukkan 19.15.  Steven Lennon skundar í kvöld til vallar í síðasta sinn í búningi FRAM, en hann gengur sem kunnugt er til liðs við norska úrvalsdeildarfélagið Sandnes Ulf á morgun.

Fyrir leikinn í kvöld situr FRAM í sjöunda sæti Pepsideildar karla með 15 stig eftir ellefu leiki, er tveimur stigum á eftir Val og þremur stigum á eftir ÍBV.  Víkinga sitja hins vegar á botni deildarinnar með 6 stig eftir ellefu leiki, eru stigi á eftir Keflavík, ÍA og Fylki.

FRAM hefur uppskorið fjögur stig í þremur síðustu deildarleikjum sínum; sigrinum gegn KR 2-1, tapinu fyrir FH 1-2 og jafnteflinu gegn Breiðabliki, 1-1.  FRAM hefur í þessum þremur leikjum skorað fjögur mörk og fengið á sig fjögur.
Víkingur hefur hlotið fimm stig í þremur síðustu leikjum sínum; markalausum jafnteflum gegn Val og Fylki og sigri gegn ÍA 1-0, þeim fyrsta í sumar.  Ólsarar hafa með öðrum orðum haldið hreinu í þremur leikjum í röð, en þó aðeins skorað eitt mark í þessum leikjum.

FRAM og Víkingur hafa mæst sex sinnum í kappleikjum á vegum KSÍ; tvisvar í 1.deild, tvisvar í Lengjubikarnum, einu sinni í Borgunarbikarnum og einu sinni í Pepsideildinni.  FRAM hefur fagnað sigri í fjórum þessara leikja og tvisvar hafa liðin gert jafntefli.  Samanlögð markatala er 10-6, FRAM í vil.
FRAM og Víkingur hafa mæst tvisvar á þessari leiktíð, einu sinni í Pepsideildinni og einu sinni í Borgunarbikarnum, og fóru báðir leikirnir fram á Ólafsvíkurvelli.  FRAM hafði betur í deildarleik í fyrstu umferð 2-1, þar sem Almarr Ormarsson og Bjarni Hólm Aðalsteinsson skoruðu mörk Safamýrarliðsins, og FRAM sló Víkinga út úr Borgunarbikarkeppninni með sigri í vítaspyrnukeppni.  Staðan að loknum venjulegum leiktíma var jöfn, 1-1, og skoraði Almarr Ormarsson markið.

Með sigri í kvöld hífir FRAM sig upp um eitt eða tvö sæti (háð úrslitum), nýtir sér það að liðin í næstu tveimur sætum fyrir ofan, Valur og ÍBV, töpuðu bæði leikjum sínum í gær, og kemst í seilingarfjarlægð við efstu lið. Stigin þrjú sem í boði eru gríðarlega dýrmæt, Víkinga bráðvantar ekki síður stig í botnbaráttunni, og stuðningurinn skiptir öllu máli.

Mætum og styðjum FRAM til sigurs!

Fram-VikingurO - Pepsi12 - 220713

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0