fbpx
MFKA_2013-579-fors

FRAM tekur á móti Víkingi | Kveðjuleikur Steven Lennon

Mynd: Helgi Viðar Hilmarsson
Mynd: Helgi Viðar Hilmarsson

FRAM tekur í kvöld á móti Víkingi frá Ólafsvík í lokaleik tólftu umferðar Pepsideildar karla í knattspyrnu og verður flautað til leiks á Laugardalsvelli klukkan 19.15.  Steven Lennon skundar í kvöld til vallar í síðasta sinn í búningi FRAM, en hann gengur sem kunnugt er til liðs við norska úrvalsdeildarfélagið Sandnes Ulf á morgun.

Fyrir leikinn í kvöld situr FRAM í sjöunda sæti Pepsideildar karla með 15 stig eftir ellefu leiki, er tveimur stigum á eftir Val og þremur stigum á eftir ÍBV.  Víkinga sitja hins vegar á botni deildarinnar með 6 stig eftir ellefu leiki, eru stigi á eftir Keflavík, ÍA og Fylki.

FRAM hefur uppskorið fjögur stig í þremur síðustu deildarleikjum sínum; sigrinum gegn KR 2-1, tapinu fyrir FH 1-2 og jafnteflinu gegn Breiðabliki, 1-1.  FRAM hefur í þessum þremur leikjum skorað fjögur mörk og fengið á sig fjögur.
Víkingur hefur hlotið fimm stig í þremur síðustu leikjum sínum; markalausum jafnteflum gegn Val og Fylki og sigri gegn ÍA 1-0, þeim fyrsta í sumar.  Ólsarar hafa með öðrum orðum haldið hreinu í þremur leikjum í röð, en þó aðeins skorað eitt mark í þessum leikjum.

FRAM og Víkingur hafa mæst sex sinnum í kappleikjum á vegum KSÍ; tvisvar í 1.deild, tvisvar í Lengjubikarnum, einu sinni í Borgunarbikarnum og einu sinni í Pepsideildinni.  FRAM hefur fagnað sigri í fjórum þessara leikja og tvisvar hafa liðin gert jafntefli.  Samanlögð markatala er 10-6, FRAM í vil.
FRAM og Víkingur hafa mæst tvisvar á þessari leiktíð, einu sinni í Pepsideildinni og einu sinni í Borgunarbikarnum, og fóru báðir leikirnir fram á Ólafsvíkurvelli.  FRAM hafði betur í deildarleik í fyrstu umferð 2-1, þar sem Almarr Ormarsson og Bjarni Hólm Aðalsteinsson skoruðu mörk Safamýrarliðsins, og FRAM sló Víkinga út úr Borgunarbikarkeppninni með sigri í vítaspyrnukeppni.  Staðan að loknum venjulegum leiktíma var jöfn, 1-1, og skoraði Almarr Ormarsson markið.

Með sigri í kvöld hífir FRAM sig upp um eitt eða tvö sæti (háð úrslitum), nýtir sér það að liðin í næstu tveimur sætum fyrir ofan, Valur og ÍBV, töpuðu bæði leikjum sínum í gær, og kemst í seilingarfjarlægð við efstu lið. Stigin þrjú sem í boði eru gríðarlega dýrmæt, Víkinga bráðvantar ekki síður stig í botnbaráttunni, og stuðningurinn skiptir öllu máli.

Mætum og styðjum FRAM til sigurs!

Fram-VikingurO - Pepsi12 - 220713

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!