fbpx
MFKA_2013-576fors

Verðskuldað tap gegn Víkingum í kveðjuleik Lennons

Mynd: Helgi Viðar HIlmarsson
Mynd: Helgi Viðar HIlmarsson

FRAM mátti í kvöld sætta sig við tap gegn Víkingum frá Ólafsvík, 3-4, í tólftu umferð Pepsideildar karla í knattspyrnu og missit þar með af gullnu tækifæri til að þoka sér í átt að efstu liðum deildarinnar.  Leikurinn var sveiflukenndur, staðan í hálfleik var jöfn 2-2 og Víkingar komust í 4-2 áður en Hólmbert Aron minnkaði muninn í blálokin.

FRAM 3-4 Víkingur (2-2)
1-0  Haukur Baldvinsson 12.mín.
1-1  Guðmundur Magnússon 15.mín.
1-2  Damir Muminovic 30.mín.
2-2  Hólmbert Aron Friðjónsson 32.mín.
2-3  Björn Pálsson 55.mín.
2-4  Alfreð Már Hjaltalín 62.mín.
3-4  Hólmbert Aron Friðjónsson (vsp.) 90.mín.

Glaðbeittir stuðningsmenn FRAM hafa væntanlega gert sér þokkalegar vonir um að kvöldið skilaði áframhaldi á þeim ágæta leik sem Safamýrarsveinar hafa sýnt upp á síðkastið og m.a. skilaði sigri gegn þá ósigruðu toppliði KR í síðustu umferð. Þær væntingar fuku þó fljótlega út um gluggann, baráttuglaðir Ólsarar gáfu FRÖMurum lítinn tíma til að byggja upp spil, voru grimmir í öllum návígjum og virtust á köflum hafa miklu meiri áhuga en andstæðingarnir á því sem fyrir lá.  Haukur Baldvinsson skoraði reyndar fyrsta mark leiksins á tólftu mínútu, skólfaði boltanum í netið af stuttu færi eftir ágætan undirbúning Lennons og Almarrs.  Víkingar jöfnuðu jafnharðan með laglegu skallamarki Guðmundar Magnússonar, sem þekkir vel til í Safamýrinni, og Damir Muminovic jók gleði Ólsara um allan helming þegar hann kom þeim yfir eftir hálftíma leik, nýtti sér þá sofandahátt í vörn FRAM.  Hólmbert Aron skoraði gott skallamark eftir sendingu Sam Hewson strax í kjölfarið á þessu marki Muminovic og staðan í hálfleik var jöfn, 2-2.
Víkingar léku síðari hálfleikinn af mikilli skynsemi, þeir eyddu litlum tíma í að pakka hlutunum inn í glitpappír og hnýta á þá slaufu, gerðu það sem þeir kunna og vita að þeir geta gert vel.  Þeir lokuðu vel á sendingarleiðir, voru nánast óskeikulir í háloftabaráttunni og hrikalega viljugir.  Það var hins vegar deyfð yfir FRAMliðinu, lítil hreyfing, sendingar margar hverjar algjörlega út úr karakter og baráttuandinn virðist hafa átt fríkvöld.  Það var hreinlega ekkert að frétta, þau fáu úrræði sem þó fundust í síðari hálfleik voru slegin út af borðinu.  Björn Pálsson nýtti sér klaufaleg mistök í vörninni þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik; Jón Gunnar átti þá sendingu tilbaka á Ögmund (sem líklega aldrei hefur ekki fengið jafnmargar sendingar tilbaka úr vörninni) en misreiknaði sig, Björn komst í milli og skoraði. Menn voru vart búnir að jafna sig á þessari köldu vatnsgusu þegar Alfreð Már Hjaltalín skoraði gull af marki með vinstrifótarskoti, óverjandi fyrir Ögmund, og kom Víkingum í 4-2.  Síðasta hálftímann voru sóknartilburðir FRAMara máttleysislegir og harla ólíklegir til afreka, en Hólmbert skoraði þó úr vítaspyrnu sem dæmd eftir að brotið hafði verið á Lennon á nítugustu mínútu, 3-4.

Tapið í kvöld er vissulega svekkjandi og það er ákveðin ráðgáta að þetta ágæta knattspyrnulið úr Safamýri geti annan daginn unnið taplaust toppliðið, en þann næsta tapað fyrir botnliðinu, sem fyrir kvöldið í kvöld hafði einn deildarsigur á afrekaskránni.  Það sem ekki síður veldur heilabrotum er andleysið, döpur frammistaðan þar sem jafnvel einföldustu atriði fóru úrskeiðis, stuttar sendingar fóru forgörðum.  Það er ekkert hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að tapið var verðskuldað, betra liðin vann í kvöld, liðið sem vann návígin, lokaði á aðgerðir andstæðinganna, barðist um lausu boltana og síðast en ekki síst…skoraði mörkin.
Það þýðir ekkert að hengja haus, þótt vissulega hefði verið sætt að læðast ofar í töflunni; næsti leikur er útileikur gegn Fylkismönnum á sunnudaginn kemur og þangað fjölmenna FRAMarar…og styðja sína menn í baráttunni.

Leikskýrslan.

FÉLAG L U J T MÖRK NET STIG
1 FH 12 8 2 2 25  –  11 14 26
2 Stjarnan 11 8 2 1 18  –    9 9 26
3 KR 11 8 1 2 25  –  14 11 25
4 Breiðablik 11 7 2 2 19  –  11 8 23
5 ÍBV 11 5 3 3 15  –  10 5 18
6 Valur 11 4 5 2 19  –  13 6 17
7 Fram 12 4 3 5 17  –  17 0 15
8 Þór 12 4 1 7 18  –  28 -10 13
9 Víkingur Ó. 12 2 3 7 10  –  20 -10 9
10 Fylkir 12 1 4 7 13  –  21 -8 7
11 ÍA 12 2 1 9 13  –  25 -12 7
12 Keflavík 11 2 1 8 12  –  25 -13 7

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0