FRAM varð í kvöld að sætta sig við tap gegn Fylki, 0-3, í þrettándu umferð Pepsideildar karla í knattspyrnu og verður ekki annað sagt en að tapið hafi verið sannfærandi og sanngjarnt. Annan leikinn í röð skoraði uppalinn FRAMari gegn sínum gömlu félögum.
Fylkir 3-0 FRAM (1-0)
1-0 Oddur Ingi Guðmundsson 31.mín.
2-0 Kristján Hauksson 55.mín.
3-0 Viðar Örn Kjartansson 70.mín.
Slen, óákveðni og baráttuskortur virðast vofa yfir FRAMliðinu þessa dagana, frammistaðan í Lautinni í kvöld minnti um margt á þá sem liðið sýndi gegn Víkingum á dögunum og uppskeran er nokkurn veginn eins og til er sáð. Fylkismenn komust yfir eftir rúmlega hálftíma leik í kvöld, boltinn hrökk af varnarmanni og fyrir fætur Odds Inga Guðmundssonar inni á vítateignum og hann skoraði með ágætu skoti. Sóknartilburðir FRAMara í fyrri hálfleik voru einsleitir og allt að því tilviljanakenndir og í raun aðeins hægt að tala um eina markverða tilraun; skot Benedikts Októs af dágóðu færi sem Bjarni Þórður í marki Fylkismanna varði.
Ekki tók mikið betra við í síðari hálfleik, Fylkismenn voru frískari og viljugri, unnu drjúgan hluta návígja og voru miklu duglegri að koma sér inn í sendingarleiðir. Safamýrarsonurinn Kristján Hauksson sýndi lítt þekkta sóknartilburði eftir tíu mínútna leik, fékk háa sendingu frá Oddi utan af kanti og inn fyrir flata vörnina, tók boltann laglega niður og lék á varnarmann áður en hann þrumaði boltanum í netið. Gjafmildin var svo allsráðandi þegar Viðar Örn Kjartansson nýtti sér sofandahátt í FRAMvörninni tuttugu mínútum fyrir leikslok, komst inn á teiginn og skoraði með föstu skoti, 3-0. Í raun gerðu FRAMarar sig aldrei líklega til að minnka muninn eða koma sér inn í leikinn, Almarr átti reyndar ágætt skot í blálokin en það var í raun eina tilraunin í síðari hálfleik sem eitthvað kvað að.
Sigur Fylkismanna var sanngjarn, þeir voru einfaldlega frískari og grimmari í öllum sínum aðgerðum, héldu skipulagi vel og pressuðu FRAMara til að spila inn á styrkleika sína. Miðjuspil FRAMliðsins var ósannfærandi í þessum leik, oft voru hlutirnir flæktir um of og jafnvel einföldustu sendingar fóru forgörðum. Fremstu menn höfðu úr litlu að moða. Það sem taka má jákvætt út úr þessum leik er að vitað er að liðið getur gert mun betur.
FÉLAG | L | U | J | T | MÖRK | NET | STIG | |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | FH | 13 | 9 | 2 | 2 | 26 – 11 | 15 | 29 |
2 | KR | 12 | 9 | 1 | 2 | 28 – 14 | 14 | 28 |
3 | Stjarnan | 12 | 8 | 3 | 1 | 19 – 10 | 9 | 27 |
4 | Breiðablik | 12 | 8 | 2 | 2 | 22 – 12 | 10 | 26 |
5 | ÍBV | 12 | 5 | 3 | 4 | 16 – 13 | 3 | 18 |
6 | Valur | 11 | 4 | 5 | 2 | 19 – 13 | 6 | 17 |
7 | Fram | 13 | 4 | 3 | 6 | 17 – 20 | -3 | 15 |
8 | Þór | 13 | 4 | 1 | 8 | 18 – 29 | -11 | 13 |
9 | Fylkir | 13 | 2 | 4 | 7 | 16 – 21 | -5 | 10 |
10 | Víkingur Ó. | 13 | 2 | 4 | 7 | 11 – 21 | -10 | 10 |
11 | ÍA | 12 | 2 | 1 | 9 | 13 – 25 | -12 | 7 |
12 | Keflavík | 12 | 2 | 1 | 9 | 12 – 28 | -16 | 7 |