Sunneva Einarsdóttir, handboltamarkvörður með meiru, skrifaði í dag undir tveggja ára samning við FRAM. Sunneva lék með Stjörnunni á síðustu leiktíð, er í hópi bestu markvarða N1-deildar kvenna og er kvennaliði FRAM gríðarlegur styrkur.
Sunneva þekkir vel til í Safamýrinni, enda uppalin FRAMari, en hún gekk til liðs við Val eftir leiktíðina 2009-2010 og lék að Hlíðarenda þar til í fyrra. Þá söðlaði hún um, gekk til liðs við Stjörnuna og átti stóran þátt í velgengni Garðbæinga á síðustu leiktíð. Stjarnan lék til úrslita við FRAM um Íslandsmeistaratitilinn sællar minningar og úr varð hörkurimma.
Sunneva hefur verið viðloðandi íslenska landsliðið undanfarin misseri og tók m.a. þátt í HM í Brasilíu fyrir tveimur árum.