FRAM tryggði sér í dag sæti í úrslitaleik Borgunarbikarkeppni karla í knattspyrnu, hafði betur gegn Breiðabliki í undanúrslitunum 2-1 og mætir Stjörnunni í úrslitaleiknum laugardaginn 17.ágúst. FRAM leikur nú til úrslita í bikarnum í fyrsta sinn síðan 2009.
FRAM 2-1 Breiðablik (2-0)
1-0 Kristinn Ingi Halldórsson 9.mín.
2-0 Hólmbert Aron Friðjónsson (vsp.) 40.mín.
2-1 Árni Vilhjálmsson 71.mín.
Liðsuppstilling Ríkharðs og Auðuns í dag kom mörgum stuðningsmanninum ögn á óvart; ekki síst þar sem Jon André Röyrane og Orri Gunnarsson voru báðir í byrjunarliðinu; Orri í stöðu hægri bakvarðar sem hann leysti með sóma. FRAM var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, gaf hreinlega ekki á sér færi og skoraði tvö mörk. Það fyrra skoraði Kristinn Ingi eftir að Gunnleifur hafði varið skot Hólmberts sem var sloppinn einn í gegn eftir sendingu Almarrs og það síðara skoraði Hólmbert úr víti sem réttilega var dæmt eftir að brotið var á Almarri. Almarr hafði skorað í öllum bikarleikjum FRAM til þessa, en lét sér nægja að koma að undirbúningi markanna í dag. Hollningin á liðinu var ágæt í fyrri hálfleik, doðinn sem lá yfir liðinu í tveimur síðustu leikjum var á bak og burt og stöðumatið gott.
Líklega duldist það fáum að Blikar myndu blása í lúðra í síðari hálfleik, tvær breytingar Óla þjálfara skiluðu sér í beittari sóknaraðgerðum gestanna. Ögmundur varði nokkrum sinnum af stakri prýði í síðari hálfleik og hlýtur nú að vera búinn að blása á allar vangaveltur um það hver sé besti markvörður landsins. Árni Vilhjálmsson gerði vel þegar hann nýtti sér sjaldséð mistök í öftustu línu FRAM, skeiðaði í átt að teignum og skoraði með góðu skoti um hálfleikinn miðjan, en lengra komust Blikar ekki. FRAM fagnaði ljúfum sigri, 2-1, og sæti í bikarúrslitaleiknum gegn Stjörnunni þann 17.ágúst næstkomandi klukkan 16 að staðartíma.