Knattspyrnuskóli FRAM hefur staðið yfir í Úlfarsárdalnum frá því 7.ágúst. Í skólanum hafa um 60 krakkar æft undir styrkri handleiðslu yngri flokka þjálfara FRAM. Á morgun föstudag verður lokadagur knattspyrnuskólans og af því tilefni verður slegið upp heljarinnar grillveislu.
Í dag fékk knattspyrnuskólinn hins vegar góða heimsókn. Ríkharður Daðason þjálfari meistaraflokks karla kom og spjallaði við krakkana og gaf þeim góð ráð og svaraði mörgum skemmtilegum og vel ígrunduðum spurningum.
Leikmennirnir Ögmundur Kristinsson fyrirliði FRAM, Haukur Baldvinsson, Hólmbert Aron Friðjónsson og Orri Gunnarsson mættu líka á svæðið og tóku þátt í spili og spjalli með krökkunum. Að lokum stilltu allir sér upp fyrir myndatöku, krakkarnir fengu áritanir frá leikmönnunum og Rikka sem að sjálfsögðu hvöttu alla til að fjölmenna á bikarúrslitaleikinn á laugardag. Ekki var annað að heyra en að hver einasti maður ætlaði að mæta í Laugardalinn og að sjálfsögðu í FRAMbúningnum fagra.
Áfram FRAM!