FRAM og Stjarnan leika í dag til úrslita í Borgunarbikarkeppni karla í knattspyrnu. Úrslitaleikurinn hefst klukkan 16 á Laugardalsvelli og stuðningsmenn FRAM hita upp bæði í Leirdal og á Classic Rock Sportbar í Ármúla frá klukkan 14.
FRAM leikur nú til úrslita í bikarkeppni KSÍ í átjánda sinn og hefur fagnað sigri sjö sinnum. Aðeins KR (13 og Valur og ÍA (9) eiga fleiri bikarmeistaratitla á afrekaskránni. FRAM hefur hins vegar ekki fagnað bikartitli síðan 1989, en þá hafði liðið betur gegn KR í úrslitaleik 3-1. FRAM hefur tapað fjórum bikarúrslitaleikjum í röð; gegn KR 1995, Fylki 2002, Val 2005 og Breiðabliki 2009. Það er löngu orðið tímabært að snúa þessari þróun til betri vegar.
Stjarnan leikur nú til úrslita í bikarkeppninni í annað sinn og reyndar annað árið í röð. Garðbæingar máttu sætta sig við tap gegn KR í fyrra, 1-2.
Heiðursgestir FRAM á leiknum í dag eru glæsilegar fulltrúar liðsins sem vann bikarmeistaratitilinn árið 1973, í fyrsta bikarúrslitaleiknum sem fram fór á Laugardalsvelli, og fagna því 40 ára áfanga á þessu ári. Jón Pétursson var fyrirliði þessa ágæta liðs, skoraði fyrsta markið í bikarúrslitaleik í dalnum og varð, eðli málsins samkvæmt, fyrstur til að lyfta bikar í Laugardalnum.
Stuðningsmenn FRAM ætla að hita upp á tveimur stöðum í dag. Klukkan 14 hefst dagskrá í Leirdal, hluti af hverfahátíðinni “Í Holtinu heima”, þar sem m.a. verður heitt á grillinu, boðið upp á andlitsmálun og knattþrautir og Hreimur, hinn eini sanni, kemur og tekur nokkur lög. Á sama tíma, eða klukkan 14, verður blásið til veislu á Classic Rock Sportbar í Ármúla, þar sem menn og konur koma saman til að fara yfir málin og Stefán Pálsson fer yfir bikarsögu FRAM á sinn einstaka hátt.
FRAMARAR! MÆTUM Í BLÁU Í LAUGARDALINN Í DAG OG STYÐJUM OKKAR MENN!