FRAM heimsækir í kvöld Stjörnuna í Pepsideild karla í knattspyrnu, en þetta eru einmitt liðin sem mættust í eftirminnilegum úrslitaleik Borgunarbikarkeppninar sl. laugardag. Flautað verður til leiks á Samsungvellinum í Garðabæ klukkan 20.15.
Bikarleikurinn á laugardag er knattspyrnuáhugafólki enn í fersku minni, FRAMarar hugsa til hans með hlýhug en Stjörnumenn hafa væntanlega einsett sér að rétta sinn hlut í kvöld. Sigurinn á laugardag var reyndar sá fyrsti sem FRAM vinnur gegn Stjörnunni í þrjú ár, Safamýrarsveinar hafa spilað fimm deildarleiki í röð gegn Stjörnunni án þess að fagna sigri og bera líklega þá von í brjósti að óheppilegri þróun hafi loksins verið snúið til betri vegar.
Stjarnan hefur unnið þrjá af síðustu deildarleikjum sínum gegn FRAM, og einn bikarleik að auki, en FRAM nældi síðast í stig gegn Stjörnunni í síðari deildarleiknum á síðustu leiktíð. Kristinn Ingi Halldórsson skoraði þá í 1-1 jafntefli á Laugardalsvelli. Stjarnan vann fyrri deildarleikinn á þessari leiktíð 1-0, en um sanngirni þeirrar niðurstöðu má deila vel og lengi.
Síðast þegar þessi lið mættust á Samsungvellinum fagnaði Stjarnan sigri, 4-2, þar sem Sveinbjörn Jónasson og Steven Lennon skoruðu mörk FRAM.
FRAM fagnaði síðast sigri í Garðabænum í ágúst 2010; 3-2. Ívar Björnsson skoraði tvö marka FRAM í leiknum og Jón Guðni Fjóluson eitt. Í byrjunarliði FRAM í þessum leik voru Halldór Hermann Jónsson, Daði Guðmundsson og Almarr Ormarsson, en á bekknum sátu Ögmundur Kristinsson, Kristinn Ingi Halldórsson og Orri Gunnarsson.
Stjörnunni hefur vegnað vel á heimavelli sínum á þessari leiktíð. Liðið hefur unnið fimm af sjö heimaleikjum sínum; gegn Víkingi, Keflavík, ÍBV, FH og KR, gert jafntefli við Val og tapað aðeins einu sinni, gegn Fylki. Stjarnan hefur hlotið 16 af 28 stigum sínum í deildinni, eða 57%, á Samsungvellinum.
FRAM hefur unnið tvo af sjö útileikjum sínum í deildinni, gegn Víkingi og Keflavík, gert jafntefli við Val og tapað gegn ÍA, ÍBV, FH og Fylki. Uppskeran er því 7 af 18 stigum, eða 39%.
Leikurinn á Samsungvellinum hefst eins og áður segir klukkan 20.15 í kvöld, var færður ögn til í dagskránni vegna Evrópuleiks FH og Genk. FRAMarar eru hvattir til að fjölmenna í Garðabæinn og sýna nýkrýndum bikarmeisturum stuðning – það sýndi sig í Laugardalnum á laugardaginn að þeir kunna og geta þegar þeir vilja svo við hafa.