fbpx
011-fors

Bikarliðin berjast á Samsungvellinum í kvöld | Stjarnan – Fram kl. 20.15

Mynd: Sport.is
Mynd: Sport.is

FRAM heimsækir í kvöld Stjörnuna í Pepsideild karla í knattspyrnu, en þetta eru einmitt liðin sem mættust í eftirminnilegum úrslitaleik Borgunarbikarkeppninar sl. laugardag.  Flautað verður til leiks á Samsungvellinum í Garðabæ klukkan 20.15.

Bikarleikurinn á laugardag er knattspyrnuáhugafólki enn í fersku minni, FRAMarar hugsa til hans með hlýhug en Stjörnumenn hafa væntanlega einsett sér að rétta sinn hlut í kvöld.  Sigurinn á laugardag var reyndar sá fyrsti sem FRAM vinnur gegn Stjörnunni í þrjú ár, Safamýrarsveinar hafa spilað fimm deildarleiki í röð gegn Stjörnunni án þess að fagna sigri og bera líklega þá von í brjósti að óheppilegri þróun hafi loksins verið snúið til betri vegar.

Stjarnan hefur unnið þrjá af síðustu deildarleikjum sínum gegn FRAM, og einn bikarleik að auki, en FRAM nældi síðast í stig gegn Stjörnunni í síðari deildarleiknum á síðustu leiktíð.  Kristinn Ingi Halldórsson skoraði þá í 1-1 jafntefli á Laugardalsvelli.  Stjarnan vann fyrri deildarleikinn á þessari leiktíð 1-0, en um sanngirni þeirrar niðurstöðu má deila vel og lengi.
Síðast þegar þessi lið mættust á Samsungvellinum fagnaði Stjarnan sigri, 4-2, þar sem Sveinbjörn Jónasson og Steven Lennon skoruðu mörk FRAM.
FRAM fagnaði síðast sigri í Garðabænum í ágúst 2010; 3-2.  Ívar Björnsson skoraði tvö marka FRAM í leiknum og Jón Guðni Fjóluson eitt.  Í byrjunarliði FRAM í þessum leik voru Halldór Hermann Jónsson, Daði Guðmundsson og Almarr Ormarsson, en á bekknum sátu Ögmundur Kristinsson, Kristinn Ingi Halldórsson og Orri Gunnarsson.

Stjörnunni hefur vegnað vel á heimavelli sínum á þessari leiktíð.  Liðið hefur unnið fimm af sjö heimaleikjum sínum; gegn Víkingi, Keflavík, ÍBV, FH og KR, gert jafntefli við Val og tapað aðeins einu sinni, gegn Fylki.  Stjarnan hefur hlotið 16 af 28 stigum sínum í deildinni, eða 57%, á Samsungvellinum.
FRAM hefur unnið tvo af sjö útileikjum sínum í deildinni, gegn Víkingi og Keflavík, gert jafntefli við Val og tapað gegn ÍA, ÍBV, FH og Fylki.  Uppskeran er því 7 af 18 stigum, eða 39%.

Leikurinn á Samsungvellinum hefst eins og áður segir klukkan 20.15 í kvöld, var færður ögn til í dagskránni vegna Evrópuleiks FH og Genk.  FRAMarar eru hvattir til að fjölmenna í Garðabæinn og sýna nýkrýndum bikarmeisturum stuðning – það sýndi sig í Laugardalnum á laugardaginn að þeir kunna og geta þegar þeir vilja svo við hafa.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!