fbpx
Almarr_hv_fors

Tap í deildaruppgjöri bikarliðanna

Mynd: Hafliði Breiðfjörð/Fótbolti.net
Mynd: Hafliði Breiðfjörð/Fótbolti.net

FRAM mátti sætta sig við tap gegn Stjörnunni, 2-3, í sextándu umferð Pepsideildar karla í knattspyrnu, en leikið var á Samsungvellinum í Garðabæ.  Annar bragur var á leikmönnum FRAM en í hinum frækna bikarsigri gegn Garðbæingum sl. laugardag.

Stjarnan 3-2 FRAM (1-0)
1-0  Garðar Jóhannsson 28.mín.
1-1  Aron Bjarnason 57.mín.
1-2  Hólmbert Aron Friðjónsson 64.mín.
2-2  Martin Rauschenberg 78.mín.
2-3  Ólafur Karl Finsen 84.mín.

Leikurinn í Garðabæ byrjaði hressilega; Orri Gunnarsson skoraði mark innan við mínútu eftir að Gunnar Jarl Jónsson flautaði til leiks, en markið var dæmt af vegna rangstöðu.  Stjarnan hafði undirtökin lengstum í fyrri hálfleik og eins marks forysta þeirra í hálfleik var alls ekki út úr korti.  Garðar Jóhannsson skoraði markið eftir tæplega hálftíma leik eftir laglega sendingu Veigar Páls Gunnarssonar.
Heldur birti yfir í síðari hálfleik, FRAMdrengir voru frískari og áræðnari en í þeim fyrri og jöfnunarmark hins bráðefnilega Arons Bjarnasonar var verðskuldað.  Markið var snoturt; Aron sýndi stilingu þrautreynds atvinnumanns þegar hann slapp inn fyrir vörnina og renndi boltanum undir Ingvar í markinu.  Hólmbert Aron Friðjónsson er skráður fyrir markinu sem kom FRAM yfir eftir tæplega tuttugu mínútna leik, en hann þrumaði boltanum í stöng úr aukaspyrnu, þaðan í hnakkann á Ingvari markverði og í netið.  Enn vænkaðist hagurinn, að því er flestir FRAMarar töldu, tveimur mínútum eftir mark Hólmberts, en þá fékk Stjörnumaðurinn Atli Jóhannsson að líta rauða spjaldið; FRAM marki yfir og manni fleiri.  Mannfæðin blés Stjörnumönnum hins vegar baráttuanda í brjóst á sama tíma og FRAMliðið hreinlega koðnaði niður, áræðið fauk út í veður og vind.  Martin Rauschenberg hefur líklega aldrei á ferlinum verið jafn frír inni á vítateig andstæðinga og þegar hann axlaði boltann í netið og jafnaði metin tólf mínútum fyrir leikslok og sigurmark Stjörnunnar, sem menn deila um hvort Ólafur Karl Finsen hafi skorað eða skráð sé sjálfsmark, skrifast að langmestu leyti á sofandahátt.

Niðurstaðan er tap, sársvekkjandi í ljósi stöðunnar um síðari hálfleikinn miðjan, og frammistaða sem varla fer í sögubækur. Vissulega komu ágætir sprettir, en þeir voru of fáir og of langt á milli þeirra.  Framundan eru gríðarlega mikilvægir leikir gegn Keflavík, Þór og ÍBV áður en hinn eiginlega endasprettur deildarinnar hefst og hann er ekki beinlínis eftirsóknarverður.  Síðustu þrír leikir FRAM í deildinni eru gegn Breiðabliki úti, FH heima og KR úti.

Leikskýrslan.

FÉLAG L U J T MÖRK NET STIG
1 FH 16 11 3 2 34  –  14 20 36
2 KR 14 11 1 2 34  –  16 18 34
3 Stjarnan 15 9 4 2 24  –  15 9 31
4 Breiðablik 14 8 4 2 24  –  14 10 28
5 Valur 15 6 6 3 30  –  20 10 24
6 ÍBV 16 5 5 6 20  –  20 0 20
7 Fram 16 5 3 8 20  –  27 -7 18
8 Fylkir 16 4 5 7 23  –  24 -1 17
9 Þór 16 4 3 9 22  –  35 -13 15
10 Keflavík 16 4 2 10 17  –  32 -15 14
11 Víkingur Ó. 16 2 6 8 13  –  25 -12 12
12 ÍA 16 2 2 12 21  –  40 -19 8

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!