fbpx
007-fors

FRAM tekur á móti Keflavík í kvöld | Gríðarlega mikilvægur leikur

007
Mynd: Sport.is

FRAM og Keflavík eigast við í sautjándu umferð Pepsideildar karla í knattspyrnu í kvöld og verður flautað til leiks á Laugardalsvelli klukkan 19.15. Fyrir leikinn situr FRAM í sjöunda sæti deildarinnar með 18 stig, en Keflavík er í tíunda sæti með 14 stig og er aðeins stigi fyrir ofan Víkinga frá Ólafsvík sem er í næstneðsta sæti.

Leikurinn í kvöld er gríðarlega mikilvægur og FRAMsigur myndi slá á grimmustu áhyggjur manna og kvenna af botnbarátu í nánustu framtíð. FRAM og Keflavík hafa skipt með sér stigum undanfarin ár, unnið á víxl nánast sleitulaust síðan 2008, en Keflavík fagnaði þó sigri í báðum deildarleikjunum gegn FRAM á síðustu leiktíð án þess að bláklæddir næðu að skora mark. FRAM vann hins vegar fyrri leikinn á þessari leiktíð sællar minningar 2-1, en það var fyrsti leikurinn sem liðið spilaði undir stjórn Ríkharðs Daðasonar og Auðuns Helgasonar.
Keflavík hafði betur í síðustu heimsókn sinni í Laugardalinn, fagnaði sigri 2-0 í júní í fyrra, og batt þá enda á þriggja leikja sigurgöngu FRAM gegn Keflavík á heimavelli.  FRAM hefur m.ö.o. unnið þrjá af fjórum siðustu heimaleikjum sínum gegn Keflavík; 5-0 árið 2009, þar sem Halldór Hermann skoraði tvö mörk, 2-1 árið 2010 með mörkum Halldórs Hermanns og Almarrs og 1-0 árið 2011 með marki Kristins Inga.  Halldór Hermann hefur skorað þrjú mörk í fjórum síðustu leikjum sínum gegn Keflavík á Laugardalsvelli.

Fram hefur spilað 8 deildarleiki á Laugardalsvelli, unnið þrjá, gert tvö jafntefli og tapað þremur.  Sigurleikirnir eru gegn Þór, KR og ÍA, jafnteflin gegn Fylki og Breiðabliki og tapleikirnir gegn Stjörnunni, Víkingi og Val.
Fram vann síðast á heimavelli þegar Skagamann komu í heimsókn 11.ágúst, 1-0.
Keflavík hefur spilað 8 útileiki í deildinni, unnið tvo, gert eitt jafntefli og tapað fimm.  Sigurleikirnir eru gegn Víkingi og  ÍA , jafnteflið gegn ÍBV og tapleikirnir gegn FH, Val, Stjörnunni, KR og Fylki.
Útisigrana unnu Keflvíkingar í maí (Víkingur) og júní (ÍA) – þeir hafa ekki unnið á útivelli síðan 24.júní.

Síðustu þrír leikir Fram eru tap gegn Val heima 0-4, sigur gegn ÍA heima 1-0 og tap gegn Stjörnunni úti 2-3.
Síðustu þrír leikir Keflvíkinga eru sigur gegn Víkingi heima 2-0, tap gegn Fylki úti 0-3 og sigur gegn Val heima 2-0.

Stuðningur áhorfenda skiptir öllu máli í Laugardalnum í kvöld – það þarf varla að fjölyrða um mikilvægi þess að FRAMarar flykkist á völlinn og styðji drengina til góðra verka. Geiramenn láta sitt ekki eftir liggja – og það ætti í raun enginn FRAMari að gera heldur.
MÆTUM OG LEGGUM OKKAR AF MÖRKUM!

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email