fbpx
Fram-Valur-sj3-fors

Valsstúlkur eru Meistarar meistaranna

Fram-Valur-sj3Bikarmeistarar Vals í handknattleik kvenna tryggðu sér í dag sigur í hinni árlegu Meistarakeppni HSÍ með því að leggja Íslandsmeistara FRAM að velli í hádramatískum og spennandi leik, 27-26.  FRAM hafði tveggja marka forystu í hálfleik, 14-12, og var fjórum mörkum yfir þegar tólf mínútur voru til leiksloka.

Þessi Meistaraleikur FRAM og Vals gefur góð fyrirheit fyrir það sem koma skal, þetta var hörkufínn handboltaleikur sem væntanlega hefur slegið að einhverju leyti á áhyggjur stuðningsmanna FRAM af löngum og erfiðum vetri. Jafnræði var með liðunum á upphafsmínútunum, en undir miðjan fyrri hálfleikinn kom ágætur kafli Valskvenna sem skilaði þeim tveggja marka forystu.  FRAMstúlkur brugðust hins vegar við þessum kafla af fagmennsku, spiluðu ágæta vörn og sölluðu inn mörkum og höfðu eins og áður segir tveggja marka forystu í hálfleik, 14-12.
FRAMstúlkur voru í bílstjórasætinu framan af síðari hálfleik og sýndu fá merki annars en að þær ætluðu að landa sætum sigri, forystan var lengstum þrjú og fjögur mörk og alls kyns skemmtilegur hlutir litu dagsins ljós.  Tólf mínútum fyrir leikslok minnkuðu Valsstúlkur muninn í þrjú mörk, 21-24, og þá kom reynsluleysi FRAMstúlkna þeim í koll.  Margsigldar Hlíðarendameyjar tóku út úr reynslubankanaum á lokakaflanum, létu stöðuna og spennuna ekki hlaupa með sig í gönur og tryggðu sér sigurinn á lokakaflanum.  FRAM skoraði aðeins tvö mörk á tíu síðustu mínútum leiksins, létu hreinlega slá sig út af laginu, og þrjú síðustu mörk leiksins voru Valsættuð. Kristín Guðmundsdóttir innsiglaði sigurinn með ágætu marki tuttugu sekúndum fyrir leikslok, 27-26.

Leikurinn var eins og áður segir hin ágætasta skemmtun og FRAMstúlkur eiga þrátt fyrir allt hrós skilið fyrir frammistöðu sína. Reynsluleysi og óðagot kom þeim í koll á lokakaflanum, en ljóst má vera að þetta ágæta handbotlalið mun standa fyrir sínu í vetur, og vel það.  Liðheildin var býsna sterk, Steinunn og Sigurbjörg áttu ágætan dag og drógu vagninn á löngum köflum, en líklega er ekki á neinn hallað þótt minnst sé sérstaklega á frammistöðu Ragnheiðar Júlíusdóttur.  Þessi sextán ára snót býr yfir sjaldséðum hæfileikum og heillaði viðstaðdda, hvoru megin stúkunnar sem þeir sátu, með ágætum töktum og þrumuskotum sem skiluðu ellefu mörkum.

Mörk FRAM: Raghheiður Júlíusdóttir 11 (1 víti), Steinunn Björnsdóttir 6, Sigurbjörg Jóhannesdóttir 5 (3 víti), Ásta Birna Gunnarsdóttir 2, Hafdís Shizuka Iura 1, Hekla Rún Ámundadóttir 1.
Varin skot: Sunneva Einarsdóttir 8.
Mörk Vals: Hrafnhildur Ósk Skúladóttir 9 (4 víti), Kristín Guðmundsdóttir 8, Íris Ásta Pétursdóttir 4, Karólína Bæhrenz Lárudóttir 3, Aðalheiður Hreinsdóttir 1, Gherman Marínela 1, Morgan Þorkelsdóttir 1 (1 víti).
Varin skot: Guðný Jenný Ásmundsdóttir 22.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!