fbpx
MFKA_2013-518-fors

FRAM heimsækir Breiðablik klukkan 17.15

MFKA_2013-518
Mynd: Helgi Viðar

FRAM heimsækir Breiðablik í tuttugustu umferð Pepsideildar karla í knattspyrnu klukkan 17.15 í dag. Stigasöfnun er aðkallandi, bláir eru ekki búnir að hrista falldrauginn af sér ennþá en gætu farið langt með að kveðja þann forna fjanda með sigri í Kópavoginum í dag. Stuðningur áhorfenda er gríðarlega mikilvægur og eru stuðningsmenn FRAM til sjávar og sveita hvattir til að fjölmenna og láta að sér kveða.

FRAM hefur vegnað ágætlega gegn Breiðabliki undanfarin misseri, hefur leikið átta leiki í röð gegn Kópavogsliðinu í deild og bikar án þess að tapa og hefur unnið fimm af sex síðustu leikjum sínum gegn Blikum.  Liðin hafa þegar mæst tvisvar á yfistandandi leiktíð; gerðu jafntefli í Pepsideildinni í júní 1-1 og FRAMarar fögnuðu svo sigri gegn Blikum í undanúrslitum Borgunarbikarkeppninnar í byrjun ágúst, 2-1.  FRAM vann báða deildarleiki liðanna á síðustu leiktíð, 2-0 í Kópavogi og 3-2 í Laugardalnum. Fimm síðustu viðureignir þessara liða á Kópavogsvelli hafa spilast þannig að FRAM hefur unnið einn, Breiðablik hefur unnið einn og þrisvar hafa liðin gert jafntefl. Breiðablik vann deildarleik liðanna í september 2008 með þremur mörkum gegn engu og það er síðasti deildarsigur þeirra grænu gegn FRAM.

FRAM hefur gengið bölvanlega að safna stigum eftir bikarsigurinn eftirminnilega um miðjan ágúst. Uppskeran í síðustu fjórum leikjum er eitt stig, sem vannst með jafntefli gegn Þór á Akureyri, 1-1. FRAM hefur tapað gegn Stjörnunni 2-3, Keflavík 2-3 og ÍBV 0-1. Á þessu sama tímabili hafa Blikar spilað þrjá leiki og uppskorið tvö stig; jafntefli gegn Víkingi 0-0, tap gegn Fylki 1-4 og jafntefli gegn Val 1-1.

Um mikilvægi leiksins þarf líklega ekki að fjölyrða. Blikar eru reyndar í ágætum málum í fjórða sæti Pepsideildarinnar með 33 stig, en FRAMarar sitja í níunda sæti með 19 stig og þurfa mjög á stigunum að halda. Þór er í tíunda sæti með 17 stig, Víkingar í því ellefta með 14 stig og Skagamenn sitja á botninum með 8 stig. Liðin eiga öll eftir að spila þrjá leiki, nema Skagamenn sem eiga eftir að spila fjóra leiki, og því eru níu stig í pottinum; FRAM er fimm stigum frá fallsæti.
Stuðningur áhorfenda er gríðarlega mikilvægur og nú þurfa FRAMarar að sýna mátt sinn og megin. Við sýndum það í bikarúslitaleiknum að við getum látið til okkar taka þegar sá gállinn er á okkur – upp með húfur og trefla, skundum í Kópavoginn og styðjum drengina okkar til góðra verka. Koma svo!

ÁFRAM FRAM!

Breiðablik-Fram - Pepsi 20 - 150913

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!