fbpx
020-fors

FRAMsveinar sóttu þrjú dýrmæt stig í Kópavoginn

Mynd: Sport.is
Mynd: Sport.is

FRAM hafði betur gegn Breiðabliki 2-1 í tuttugustu umferð Pepsideildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld og sótti þar með afar dýrmæt stig í baráttunni við hinn aldræmda falldraug. Almarr Ormarsson og Kristinn Ingi Halldórsson skoruðu mörk FRAM í leiknum og tryggðu fyrsta deildarsigurinn síðan um miðjan ágúst.

Breiðablik 1-2 FRAM (0-1)
0-1  Almarr Ormarsson 42.mín.
0-2  Kristinn Ingi Halldórsson 56.mín.
1-2  Halldór Arnarsson (sjm.) 57.mín.

FRAM hefur gengið ágætlega að hemja Blikana undanfarin misseri og engin breyting varð þar á í kvöld. Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn, tíðindalítill reyndar ef frá er talið stangarskot Almarrs Ormarssonar eftir rúmlega tuttugu mínútna leik, en FRAMarar voru vissulega ögn líklegri til afreka. Þeir uppskáru mark þremur mínútum fyrir lok hálfleiksins, en þá skoraði Almarr eftir nokkurn atgang inni á vítateig Blika og ágæta sendingu Orra Gunnarssonar.
Kristinn Ingi Halldórsson kom inn á sem varamaður fyrir Hólmbert Aron í upphafi síðari hálfleiks og þar með breyttist ásýnd FRAMliðsins nokkuð. Kristinn Ingi nýtti hraða sinn til ágætra verka og skoraði gull af marki eftir rúmlega tíu mínútna leik. Jon André Röyrane átti ágæta sendingu á Almarr á hægri vængnum, Almarr læddi boltanum inn á Kristinn Inga sem skeiðaði inn á teiginn hægra megin og skoraði með hnitmiðuðu skoti, 2-0. Blikar minnkuðu muninn andartökum síðar og það er í raun ósanngjarnt að skrá markið sem sjálfsmark. Halldór Arnarsson, sem átti nokkrar rándýrar tæklingar í leiknum, reyndi að bjarga á ögurstundu skalla Sverris Inga og þrumaði boltanum í netið. Blikar sóttu nokkuð stíft á lokakafla leiksins og áttu m.a. skot í þverslána á marki FRAM, en þeim gekk bölvanlega að brjóta vörn Safamýrarpilta á bak aftur.

Uppskeran er því sigur, 2-1, og afar dýrmæt stig sem fara langleiðina með að kveða falldrauginn á burt. Þetta var ekki fallegasti sigur sumarsins, en dýrmætur var hann. Barátta FRAMdrengja var til hreinnar fyrirmyndar, menn voru nánast orðnir bláir á vörunum á lokaandartökum leiksins en gáfu ekkert eftir. Vinnslan á miðjunni var með ágætum, Lowing sterkur og Halldór Arnarsson átti eins og áður segir nokkur dýrmæt augnablik. Hann fer tæplega að halda námskeið í knattþrautum, en baráttan, viljinn og tímasetningar tæklinga eru öðrum til eftirbreytni. Þá átti Kristinn Ingi glimrandi innkomu og sigurmarkið var snoturt.

FÉLAG L U J T MÖRK NET STIG
1 KR 18 15 1 2 45  –  19 26 46
2 FH 20 12 5 3 41  –  22 19 41
3 Stjarnan 20 12 4 4 31  –  19 12 40
4 Breiðablik 19 9 6 4 29  –  22 7 33
5 ÍBV 19 8 5 6 23  –  20 3 29
6 Valur 19 6 9 4 37  –  29 8 27
7 Fram 20 6 4 10 25  –  33 -8 22
8 Fylkir 20 5 5 10 28  –  31 -3 20
9 Keflavík 19 6 2 11 25  –  40 -15 20
10 Þór 19 4 5 10 26  –  41 -15 17
11 Víkingur Ó. 19 2 8 9 15  –  28 -13 14
12 ÍA 18 2 2 14 25  –  46 -21 8

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!