fbpx
SPS004-fors

Átta marka tap í fyrsta leiknum

SPS004Íslandsmeistarar FRAM máttu sætta sig við átta marka tap gegn Akureyri, 17-25, í fyrsta leik sínum í Olísdeild karla í handknattleik á þessari leiktíð. Leikið var í Höllinni á Akureyri. Staðan í hálfleik var 9-6 fyrir norðanmenn, sem bættu hægt og bítandi við forystuna í síðari hálfleik og unnu býsna sannfærandi sigur.

Jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleiknum, sóknarleikur beggja frekar bágborinn og hið unga og snarbreytta lið FRAM hlóð á sig óþarfa mistökum eftir því sem á leið. Akureyringar tóku eilítinn kipp undir lok hálfleiksins og höfðu að honum afloknum þriggja marka forystu, 9-6.
Heimamenn höfðu tögl og haldir í síðari hálfleik, FRAMarar virtust á köflum ekki átta sig á því að yfir stæði handboltaleikur og baráttan var fokin út í veður og vind. Slíkt kann sjaldnast góðri lukku að stýra í íþróttakappleik. Niðurstaðan er átta marka tap, 17-25, sem er í stærra lagi þegar allt kemur til alls. Það eru hæfileikar til staðar í liði FRAM og mikill efniviður, um það efast ekki nokkur maður, og liðið kemur til með að spilast betur og betur saman eftir því sem á liður.  Guðlaugur Arnarsson, þjálfari FRAM, lét hafa það eftir sér í viðtölum í leikslok að sóknarleikurinn hefði orðið liðinu að falli og að grimmdar og baráttu hefði verið sárt saknað.

Mörk FRAM: Sigfús Páll Sigfússon 5, Stefán Baldvin Stefánsson 4, Sigurður Þorsteinsson 4, Garðar B. Sigurjónsson 2, Ólafur Magnússon 2, Sveinn Þorgeirsson 1.
Varin skot: Stephen Nielsen 8, Svavar Már Ólafsson 1.
Mörk Akureyrar: Valþór Guðrúnarson 8, Kristján Orri Jóhannsson 5, Sigþór Heimisson 3, Bjarni Fritzson 3 (1 víti), Þrándur Gíslason 2, Gunnar Þórsson 1, Halldór Logi Árnason 1, Jón Heiðar Sigurðsson 1, Arnór Þorri Þorsteinsson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 14.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0