fbpx
SPS004-fors

Átta marka tap í fyrsta leiknum

SPS004Íslandsmeistarar FRAM máttu sætta sig við átta marka tap gegn Akureyri, 17-25, í fyrsta leik sínum í Olísdeild karla í handknattleik á þessari leiktíð. Leikið var í Höllinni á Akureyri. Staðan í hálfleik var 9-6 fyrir norðanmenn, sem bættu hægt og bítandi við forystuna í síðari hálfleik og unnu býsna sannfærandi sigur.

Jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleiknum, sóknarleikur beggja frekar bágborinn og hið unga og snarbreytta lið FRAM hlóð á sig óþarfa mistökum eftir því sem á leið. Akureyringar tóku eilítinn kipp undir lok hálfleiksins og höfðu að honum afloknum þriggja marka forystu, 9-6.
Heimamenn höfðu tögl og haldir í síðari hálfleik, FRAMarar virtust á köflum ekki átta sig á því að yfir stæði handboltaleikur og baráttan var fokin út í veður og vind. Slíkt kann sjaldnast góðri lukku að stýra í íþróttakappleik. Niðurstaðan er átta marka tap, 17-25, sem er í stærra lagi þegar allt kemur til alls. Það eru hæfileikar til staðar í liði FRAM og mikill efniviður, um það efast ekki nokkur maður, og liðið kemur til með að spilast betur og betur saman eftir því sem á liður.  Guðlaugur Arnarsson, þjálfari FRAM, lét hafa það eftir sér í viðtölum í leikslok að sóknarleikurinn hefði orðið liðinu að falli og að grimmdar og baráttu hefði verið sárt saknað.

Mörk FRAM: Sigfús Páll Sigfússon 5, Stefán Baldvin Stefánsson 4, Sigurður Þorsteinsson 4, Garðar B. Sigurjónsson 2, Ólafur Magnússon 2, Sveinn Þorgeirsson 1.
Varin skot: Stephen Nielsen 8, Svavar Már Ólafsson 1.
Mörk Akureyrar: Valþór Guðrúnarson 8, Kristján Orri Jóhannsson 5, Sigþór Heimisson 3, Bjarni Fritzson 3 (1 víti), Þrándur Gíslason 2, Gunnar Þórsson 1, Halldór Logi Árnason 1, Jón Heiðar Sigurðsson 1, Arnór Þorri Þorsteinsson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 14.

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!