Meistaraflokkur kvenna – fyrsti leikur á morgun
Meistaraflokkur kvenna hefur á morgun, föstudag, titlivörn sína þegar Íslandsmótið hefst að nýju. Undirrituðum finnst að það séu ekki nema nokkrara vikur síðan við fögnuðum Íslandsmeistaratitlinum í Safamýrinni í byrjun maí s.l. Síðan er þó liðið heilt sumar og margt hefur breyst í herbúðum meistaraflokks kvenna.
Breytingar frá síðasta vetri
Miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum, sem vann titilinn í vor. Leikmenn hafa lagt skóna á hilluna, tekið til við að fjölga frömmurum og síðan einnig haldið á vit nýrra ævintýra bæði hér innanlands en einnig erlendis.
Ef við förum aðeins yfir hópinn sem sem hóf tímabilið síðastliðið haust, þá hafa eftirfarandi leikmenn horfið á braut. Guðrún Ósk Maríasdóttir hætti á miðjum síðasta vetri þar sem hún var ólétt, en hún hefur nú gengið til liðs við FH sem eru einmitt mótherjar FRAM í fyrsta leik. Karen Ösp Guðbjartsdóttir lék ekkert með síðasta vetur vegna meiðsla og hefur hætt handknattleiksiðkun allavega í bili. Guðrún Bjartmarz sem óvænt varð í aðalhlutverki í fyrra vetur og stóð sig með stakri príði hefur lagt skóna á hilluna en er þó til reiðu ef þarf. Anna María Guðmundsdóttir hefur skipti yfir í HK. Elísabet Gunnarsdóttir skipti aftur yfir í sitt gamla félag Stjörnuna. Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir er ólétt og verður því ekki með í vetur. Stella Sigurðardóttir hélt til Danmerkur. Sunna Jónsdóttir hélt til Svíþjóðar og það sama gerði Birna Berg Haraldsdóttir
Þó að það sé erfitt að sjá á eftir öllum þessum leikmönnum, þá er það jákvætt og vonandi segir eitthvað um að verið sé að vinna gott starf í Safamýrinni að leikmenn frá FRAM geti tekið skref fram á við í handboltaiðkun erlendis. Á síðustu árum hafa að mig minnir allavega 6 leikmenn frá FRAM haldið á vit ævintýranna og leika nú með liðum í Evrópu.
Engin ástæða til að örvænta
En þrátt fyrir þessar miklu breytingar sem orðið hafa á liðinu þá er enginn ástæða til að leggja niður rófuna og gefast upp. Nú er hafinn tími nýrrar uppbyggingar á meistaraflokki kvenna og vonandi tími nýrra ævintýra í Safamýrinni.
FRAM er svo ótrúlega heppið félag að eiga leikmenn sem hafa verið tilbúnir til að leggja allt í sölurnar undanfarin ár til að ná árangri og eru tilbúnir til þess enn. Hér er ég að tala um þá leikmenn sem hafa verið kjarninn í liðinu undanfarin ár og verða þann einnig í vetur. Þetta eru þær Sigurbjörg Jóhannsdóttir, Ásta Birna Gunnarsdóttir, Marthe Sördal og Steinunn Björnsdóttir sem verða í vetur „gömlu“ leikmennirnir í liðinu. Ásamt leikmönnum sem hafa komið inní liðið á undanförnum árum eins og María Karlsdóttir, Hekla Rún Ámundadóttir, Hafdís Shizuka Iura, Hildur Gunnarsdóttur.
Þessu til viðbótar fékk FRAM aftur til sín Sunnevu Einarsdóttur markmann sem er uppalin í FRAM en hefur leikið undanfarin ár með Val og nú síðast Stjörnunni.
Ofangreindir leikmenn verða þeir leikmenn sem mynda meistaraflokk kvenna í vetur ásamt hópi af ungum og efnilegum leikmönnum sem eru að ganga upp úr 3. flokki eða eru þar enn.
Þeir leikmenn sem eru að ganga upp úr 3. flokki í vetur eru þær; Elva Þóra Arnardóttir, Hafdís Shizuka Iura, Hildur Gunnarsdóttir, Íris Kristín Smith, Jóhanna Björk Viktorsdóttir, Karólína Vilborg Torfadóttir og Kristín Helgadóttir.
Einnig eru leikmenn sem munu æfa og spila með meistaraflokki enn í 3. flokki, en það eru þær; Guðrún Jenný Sigurðardóttir, Hafdís Lilja Torfadóttir, Hekla Rún Ámundadóttir, Hulda Dagsdóttir og Ragnheiður Júlíusdóttir.
Þessir yngri leikmenn hafa flestir verið í yngri landsliðum Íslands í lengri eða skemmri tíma.
Af 18 manna leikmannahópi þá eru 12 leikmenn enn yngri en 20 ára.
Af þessu má sjá að það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af framtíðinni af kvennahandbolta hjá FRAM. Þó að vissulega sé liðið mikið breytt er ekki neitt annað sem kemur til greina en að setja stefnuna á baráttu um titla í vetur í öllum keppnum.
Undirbúningstímabilið
Undirbúningstímabilið hefur gengið nokkuð vel eftir að liðið fór að æfa í byrjun ágúst. FRAM hefur sigrað í flestum þeim leikjum sem spilaðir hafa verið á undirbúningstímabilinu. Liðið sigraði á æfingamóti Gróttu og Subway fyrir tveimur vikum og varð síðan Reykjavíkurmeistari í síðustu viku.
Liðið tapaði hins vegar fyrir Val í leik meistara meistaranna um síðustu helgi með einu marki, eftir að hafa verið yfir lengst af leiks.
FRAMundan
Annaðkvöld verður fyrsti leikurinn á Íslandsmótinu og eru það þá FH sem verða mótherjarnir og leikið í Kaplakrika. Það er ljóst að í vetur verður það markmið allra annarra liða að vinna Íslandsmeistarana þannig að það má reikna með erfiðum leik annaðkvöld.
Það er því ráð fyrir FRAMara að mæta í Hafnarfjörðinn á morgun, föstudaginn 20. september, kl. 19:30 og styðja við bakið á ungu liði FRAM í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.
FRAM-kveðja
vatnsberinn