Knattspyrnufélagið Fram vill koma á framfæri alvarlegum athugasemdum við auglýsta tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur.
Það eru félaginu mikil vonbrigði að til standi að breyta fyrirhuguðum áformum um byggð í Úlfarsárdal úr því að vera að lágmarki 3000 íbúða byggð í að vera aðeins 1100-1200 íbúðir. Slíkt mun líklega leiða af sér að í stað 9-10 þúsund íbúa byggðar yrði einungis um að ræða byggð í nágrenni við þrjú þúsund íbúa.
Síðan að borgaryfirvöld komu fyrst fram með hugmyndir í þessa veru, snemma árs 2012 þá hafa komið fram kröftug mótmæli frá íbúum og öðrum hagsmunaaðilum hverfisins. Ekkert samráð hefur verið haft við íbúa eða aðra hagsmunaaðil um þessa gjörbreyttu stefnu í uppbyggingu hverfisins. Ef áform þessi ganga eftir verður vilji íbúa og annarra hagsmunaaðila hverfisins virtur að vettugi og gengið þvert gegn þeirra vilja.
Grafarholtið og Úlfarsárdalur eru í dag íbúða- og þjónustukjarni þar sem til hefur staðið að mynda a.m.k 15 þúsund manna byggð. Ef auglýst áform ganga eftir þá mun íbúafjöldi einungis verða ca. 8 þús. manns, þ.e. 5 þús. + 3 þús. Í dag eru íbúar samtals ca. 6 þús. Þessum hugmyndum hefur verið mótmælt af Knattspyrnufélaginu Fram og fjölmörgum öðrum aðilum s.s. íbúasamtökum. Fulltrúi félagsins sendi m.a. stýrihóp um aðalskipulag bréf (e-mail) þann 19 október 2012 með athugasemdum og ábendingum sem ekki hefur verið tekið tillit til eða svarað yfir höfuð.
Til þess að mynda fjölbeytta og lífvænlega byggð þá þarf stærð hennar að vera nægjanlega mikil til þess að laða að sér og bera afburða grunnþjónustu sem hægt er að veita með hagkvæmum og metnaðarfullum hætti. Saman geta Grafarholt og Úlfarsárdalur myndað hagkvæma einingu sem er nægjanlega stór til að vera aðlaðandi fyrir aðila sem vilja bjóða ýmiskonar þjónustu, verslun og einnig bera öfluga innviðastarfsemi s.s. íþróttastarfsemi, sundlaug, bókasafn o.s.frv.
Til þess að öflugt fjölgreina íþróttafélag líkt og Knattspyrnufélagið Fram geti þrifist til langrar framtíðar þarf stærra hverfi, heldur en 8 þúsund manns. Reynsla félagsins og annara íþróttafélaga er að sá fjöldi íbúa er ekki nægjanlegur til að bera uppi fullnægjandi blómlegt íþróttastarf kvenna og karla þegar horft er til langs tíma, því huga þarf að eðlilegum sveiflum í aldurssamsetningu hverfa. Íþróttastarf er háð því að að hverfi séu nægjanlega stór til þess að bera öflugt starf þrátt fyrir að hverfi eldist tímabundið. Núverandi skipulag sem mun að lokum mynda 15 þús. manna byggð gerir það á meðan 8 þús. gera það tæpast þegar horft til lengri tíma.
Hið sama er líklegt til að vera upp á teningnum þegar horft til til nýtingar á innviðum s.s. bókasafni, sundlaug, skólum osfrv.
Knattspyrnufélagið Fram hefur lagt metnað sinn í að koma á fót íþróttastarfsemi sem þjónar Grafarholti og Úlfarsárdal, enda er félagið sannfært um að hvergi séu betri tækifæri hér á landi til þess að koma upp öflugu starfi ef rétt verður staðið að uppbyggingu. Landfræðilegar aðstæður eru með þeim hætti að íþróttastarf getur farið fram í umhverfi sem á sér engan líkan hér á landi, bæði þegar horft er til náttúrufegurðar og þess að mynda miðpunkt í hverfi.
Ungt barnafólk vill búa í úthverfi. Um þetta þarf ekki að fjölyrða, heldur er nægjanlegt að horfa til þess hvert barnafólk hefur leitað síðustu ár þegar það hefur þurft að stækka við sig. Valkostir borgarinnar í þeim efnum hafa verið takmarkaðir og skuldbinding borgarinnar til þeirra verið óljós sbr. misvísandi skilaboða um uppbyggingu í Úlfarsárdal. Á síðustu árum hefur byggð á höfuðborgarsvæðinu þróast með þeim hætti að úthverfi hafa vaxið þar sem upp á þau hefur verið boðið, s.s. í Kópavogi, Garðabæ, Hafnafirði, Mosfellsbæ osfrv. Slík þróun mun áfram eiga sér stað því þar eru þær þarfir sem flest barnafólk hefur uppfylltar. Það er því skynsamlegt að bjóða íbúum landsins aðgengi að glæsilegu svæði sem hefur upp á að bjóða allt sem prýðir gott úthverfi í einu af síðustu suðurhlíðum höfuðborgarsvæðisins.
Þétting byggðar er ágætt markmið en ekki má gleyma að bjóða fólki upp á góðan valkost í úthverfi. Þegar stefnt er að þéttingu byggðar er nærtækt að horfa til þess að styrkja íbúðakjarnan í Grafarholti og Úlfarsárdal þannig að til verði samfellt gott hverfi af hagkvæmri stærð sem ber blómlega starfsemi, þar á meðal íþróttastarfsemi til langrar framtíðar.
Knattspyrnufélagið Fram leggur hér með fram þá bón að fallið verði frá því að minnka byggð niður fyrir 3000 þús. íbúðir á skipulagstímanum fram til 2030 líkt og núverandi tillaga gerir ráð fyrir. Það er von félagsins að borgaryfirvöld taki tillit til þessara og annara athugasemda sem fram hafa komið að hálfu félagsins og tryggi að hverfið verði nægjanlega stórt og öflugt til að bera fjölbreytta íþróttastarfsemi til langs tíma. Það er því ósk félagsins að fyrri áform verði látin halda sér.
Virðingarfyllst
f.h. Knattspyrnufélagsins Fram
Ólafur I Arnarsson formaður aðalstjórnar