fbpx
GBS003-fors

Sanngjarn og sannfærandi sigur í fyrsta heimaleiknum

GBS003FRAM hafði í kvöld betur gegn HK 29-23 í Olísdeild karla í handknattleik og fagnaði því sanngjörnum og sannfærandi sigri í fyrsta heimaleik leiktíðarinnar. Staðan í hálfleik var 16-11 fyrir FRAM, sem náði mest níu marka forystu í síðari hálfleik.

Fyrri hálfleikurinn í FRAMhúsinu í kvöld var kaflaskiptur; FRAM hóf leikinn af krafti og náði fljótlega þriggja marka forystu, en HK-ingar tóku kipp og jöfnuðu metin um hálfleikinn miðjan, 7-7.  Á þessum kafla virtust Kópavogsbúar hafa stillt vörnina sína ágætlega af, markaskorun varð heimamönnum torsótt, en svo kom í ljós að þessi greining var ekki alls kostar rétt.  FRAMarar spýttu í lófana, ungu mennirnir sýndu dug og þor og sölluðu inn mörkum og ánægjulegt var að sjá jákvæða stemmningu meðal leikmanna, að stórum hluta runna undan rifjum Garðars nokkurs Sigurjónssonar. FRAM náði forystu á nýjan leik og var fimm mörkum yfir í hálfleik, 16-11.
FRAM hafði ágæt tök á leiknum í síðari hálfleik, vörnin var ágætlega stöndug með Stephen Nielsen í dágóðum ham á milli stanganna og sóknarleikurinn var nokkuð yfirvegaður. Aldurinn er ekki beinlínis að þvælast fyrir stórum hluta leikmannanna, þeir læra og þroskast í hverjum einasta leik og gerðu margt ljómandi vel í kvöld. Baráttan var til fyrirmyndar, nokkuð sem vantaði talsvert upp á í fyrstu umferðinni á Akureyri, og um síðari hálfleikinn miðjan spurningin aðeins sú hversu stór sigurinn yrði. Forysta FRAM fór aldrei niður fyrir fjögur mörk og varð eins og áður segir mest níu mörk, en HK-ingar náði að rétta hlut sinn lítillega á lokakaflanum. Lokatölur urðu 29-23 og það má taka margt jákvætt út úr þessum leik.

Mörk FRAM: Garðar B. Sigurjónsson 5 (2 víti), Sigurður Örn Þorsteinsson 5, Ólafur Magnússon 4, Sveinn Þorgeirsson 4, Stefán Baldvin Stefánsson 4, Sigfús Páll Sigfússon 3, Arnar Freyr Ársælsson 1.
Varin skot: Stephen Nielsen 21 (1 víti), Svavar Már Ólafsson 1 (1 víti).
Mörk HK: Leó Snær Pétursson 6, Daníel Berg Grétarsson 3 (1 víti), Sigurður Már Guðmundsson 3, Atli Karl Bachmann 3, Davíð Ágústsson 2, Ólafur Víðir Ólafsson 2 (2 víti), Tryggvi Þór Tryggvason 1, Garðar Svansson 1, Óðinn Þór Ríkharðsson 1, Jóhann Reynir Gunnlaugsson 1.
Varin skot: Björn Ingi Friðþjófsson 9 (1 víti), Helgi Hlynsson 1.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!