Framherjinn Guðmundur Steinn Hafsteinsson skrifaði í kvöld undir tveggja ára samning við Fram. Guðmundur Steinn sem er 24 ára hefur tvö undanfarin ár leikið með Víking Ólafsvík en hann lék áður með Val. Guðmundur Steinn var lykilmaður þegar Víkingur fór upp í úrvalsdeild 2012, þá skoraði hann 10 mörk í 20 leikjum og var valinn besti leikmaður 1. deildar af þjálfurum og fyrirliðum liðanna í deildinni.
Hann var fyrirliði Víkings bæði árin í Ólafsvík. Guðmundur Steinn á að baki 5 leiki með U19 ára liði Íslands. Bjarni Guðjónsson þjálfari Fram segist hafa miklar væntingar til þessa nýjasta leikmanns félagsins. „Við erum ekki bara að fá flottan fótboltamann heldur einnig frábæran karakter.“ Fram býður Guðmund Stein hjartanlega velkominn í Safarmýrina.