Það voru tvö dýrmæt stig sem unnust í FRAMhúsinu í kvöld þegar við FRAMarar tókum á móti Akureyri. Leikurinn var eins og við mátti búast mikill baráttu leikur enda tvö lið sem eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni.
Leikurinn í kvöld var ágætur, Akureyri byrjaði aðeins betur en við FRAMarar jöfnuðum fljótt og náðum fljótlega yfirhöndinn í leiknum og leiddum í hálfleik 13-10. Útlitið var því gott og maður hafði það á tilfinningunni að þessi leikur myndi vinnast. Vörnin var góð og allir leikmenn FRAM að leggja sig 100% í verkefnið, það hefur verið uppskriftin að sigrum í síðustu leikjum.
Seinni hálfleikurinn spilaðist eins og við vonuðumst eftir, drengirnir okkar mættu á fullu og náðu fljótlega góðu forskoti í síðari hálfleikinn. Mestur var munurinn 5 mörk og í þeirri stöðu leit þetta mjög vel út, en eins og stundum vill gerast þá slökuðum við of fljótt á klónni og Akureyri gekk á lagið. Við nýttum illa að vera einum fleiri og einstaklings framtak Akureyrar fór að bera árangur þegar við sofnuðum á verðinum. Sveinn fékk svo þriðju brottvísunina þegar 10 mín. voru eftir og þá lentum við í smá vandræðum sóknarlega en héldum sjó og kláruðum þennan leik með príði. Vörnin var góð allan tímann, markvarslan góð að mestu og sóknin alveg þolanleg en í heildina séð þá getum við spilað betur en í kvöld, það er klárt. Það sem stendur upp úr, enn og aftur er gríðarleg vinnusemi og dugnaður okkar leikmanna, ótrúlega flottir drengir sem við eigum á öllum aldri.
Flottur sigur í kvöld FRAMarar