fbpx
Borgarfjarðar drengir 2013 vefur

Þrír strákar í Borgarfirði með Fram í Reykjavík

Aka yfir 100 km á æfingar

Yfirleitt æfa menn íþróttir í sinni heimabyggð en þrír strákar í Borgarfirði láta sér það ekki nægja og sækja fótboltaæfingar hjá Fram í Reykjavík tvi…

Yfirleitt æfa menn íþróttir í sinni heimabyggð en þrír strákar í Borgarfirði láta sér það ekki nægja og sækja fótboltaæfingar hjá Fram í Reykjavík tvisvar til þrisvar í viku fyrir utan leiki.

Helgi Guðjónsson er 14 ára og á heima í Reykholti þar sem foreldrar hans starfa. Hann er nýgenginn upp í 3. flokk og hefur æft og leikið með Fram undanfarin tvö ár, en spilaði einnig fyrir félagið sumarið 2008 og 2009. Tilviljun réð því að leið hans lá í Safamýrina.

Vinur minn, sonur vinkonu mömmu, æfði með Fram þegar við vorum mjög litlir,« rifjar Helgi upp. »Einu sinni var ég hjá þeim í viku og fór á æfingar með honum og á N1-mótið í kjölfarið. Þegar ég var á fyrra árinu í 4. flokki fór ég til Reykjavíkur og pabbi hringdi og spurði hvort það væri æfing hjá Fram. Svo var ekki en það var leikur þann dag og þeir báðu mig um að koma og ég spilaði leikinn alveg upp úr þurru. Síðan hef ég haldið áfram.«

Fjölhæfur íþróttamaður

Um 110 km eru úr Reykholti í bæinn og heldur lengra frá Húsafelli, þar sem Rúnar Bergþórsson, 13 ára, býr en hann byrjaði að æfa með Fram á þessu ári. Fyrir skömmu bættist Ragnar Magni Sigurjónsson, 14 ára, á Hvanneyri í hópinn, en foreldrarnir skiptast á að keyra þá. »Helgi er mjög ánægður hjá Fram enda öll umgjörð til fyrirmyndar og þjálfararnir, þeir Lárus Grétarsson og Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson, einstaklega góðir og hvetjandi,« segir Guðjón Guðmundsson, faðir Helga.

Helgi er fjölhæfur íþróttamaður, spilar körfubolta með Skallagrími og Reykdælum, hefur farið á aldursflokkameistaramót Íslands í sundi þar sem hann er sterkastur í 100 og 200 m bringusundi auk þess sem hann hefur látið til sín taka á hlaupabrautinni, einkum í 600 og 800 m hlaupi. »Ég held að fótboltinn sé skemmtilegastur,« segir hann. »Í nokkur ár hef ég farið suður á íþróttamót flestar helgar, hvort sem það er í frjálsum, sundi eða körfu. Það er því komið upp í vana að fara í bæinn og það venst vel. Eftir að strákarnir bættust í hópinn hefur álagið líka dreifst á fleiri.«

Þó að nóg sé að gera í íþróttunum stundar Helgi námið af kappi og stendur sig vel en hann er í 9. bekk. »Ætli ég fari ekki í framhaldsskóla í bænum til þess að geta æft fótbolta,« segir hann um framhaldið.

Helgi heldur með Manchester United í ensku knattspyrnunni en á sér ekki sérstakar fyrirmyndir í boltanum. Mér finnst Robin van Persie mjög skemmtilegur og hann er kannski helsta fyrirmyndin.
Borgarfjarðar drengir 2013.

Keppnismenn Ragnar Magni Sigurjónsson (t.v.), Helgi Guðjónsson og Rúnar Bergþórsson fyrir æfingu í gærkvöldi.

Fréttin er fengin úr Morgunblaðinu 4. desember. Steinþór Guðbjartsson skrifaði og mynd Kristinn.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!