Handknattleiksdeild Fram og Guðlaugur Arnarsson þjálfari meistaraflokks karla framlengja samning út keppnistímabilið 2016-2017
Guðlaugur Arnarsson þjálfari meistaraflokks FRAM skrifaði í gær undir nýjan samning við félagið sem gildir út keppnistímabilið 2016-2017. Guðlaugur var með gildan samning við FRAM út næsta tímabil en nú er búið að tryggja að Guðlaugur verður þjálfari liðsins næstu 3 árin.
Helga Björk Eiríksdóttir, formaður handknattleiksdeildar FRAM: “Við erum gríðarlega sátt við Guðlaug og þær áherslur sem hann setti þegar hann tók við liðinu fyrir yfirstandandi tímabil. Við misstum marga leikmenn fyrir tímabilið og tókum þá ákvörðun að nýta þann efnivið sem býr í félaginu og setja yngri leikmenn í stærri hlutverk. Með því að framlengja samninginn við Guðlaug gefum við honum frekara tækifæri til að leiða þá uppbyggingu sem fyrir höndum er. Við erum því afar ánægð að hafa tryggt okkur krafta Guðlaugs áfram og horfum björtum augum á framtíð FRAM.”
Guðlaugur Arnarsson, þjálfari meistaraflokks FRAM: “Ég er virkilega ánægður með það traust sem stjórn handknattleiksdeildar sýnir mér með því að framlengja samninginn okkar á milli strax. Það og sú staðreynd að okkar efnilegu strákar eru líka að framlengja sína samninga undirstrikar þá metnaðarfullu vinnu sem við ætlum að leggja í á komandi árum. Ég hlakka mikið til að vinna áfram með þessum strákum og öllu því góða fólki sem er að vinna kringum liðið.”
Handknattleiksdeild FRAM