Kristófer Fannar Guðmundsson, hinn ungi og efnilegi markvörður, skrifaði í dag undir tveggja ára samning við Handkanttleiksdeild FRAM og yfirgefur herbúðir ÍR til að verja mark FRAM. Kristófer er uppalinn í Mosfellsbænum og lék alla yngri flokkana með Aftureldingu. Hann gekk til liðs við ÍR árið 2011 og átti ríkan þátt í því að koma liðinu í úrvalsdeild. Hann varð bikarmeistari með ÍR í fyrra og lék aftur til úrslita í bikarnum á síðustu leiktíð.
Kristófer Fannar hefur leikið með unglingalandsliðum Íslands og stóð vaktina í marki Íslands þegar U19 landsliðið hampaði silfri á HM í Túnis árið 2009. Í byrjun apríl á þessu ári tók hann í fyrsta sinn þátt í æfingum með A-landsliðinu og lék þá sinn fyrsta landsleik gegn Austurríki.
Guðlaugur Arnarsson, þjálfari meistaraflokks FRAM: “Það er afar ánægjulegt að bjóða Kristófer velkominn í okkar unga en öfluga hóp. Við teljum hann mikinn liðsstyrk og væntum þess að hann muni springa út í markinu hjá FRAM. Hann er góður karakter innan sem utan vallar og mun falla vel inn liðsheildina. “
Handknattleiksdeild FRAM