Eins og venjulega þá leit Laugardalsvöllurinn vel út í kvöld og aðstæður góðar. Fyrsta skiptið í sumar sem hægt er að sitja í stúkunni án þess að skjálfa úr kulda. Mér var sagt að stúkan væri ekki bara kaldasti staður í Reykjavík heldur á Íslandi.
Leikurinn í kvöld var varla byrjaður þegar við náðum forskoti í leiknum þegar Ásgeir Marteinsson gerði þá sérlega glæsilegt mark þegar hann lagði knöttinn í netið hjá Stjörnumönnum. Flott mark. Það var svo á 37 mín sem Stjörnumenn urðu manni færri og ég hafði það á tilfinningunni að við myndum ná tökum á leiknum. Staðan í hálfleik 1-0.
Síðari hálfleikur varð svo heinasta hörmung af okkar hálfu og ég varð að minna mig ítrekað á það að við værum manni fleiri. Við sýndum ekkert frumkvæði, enginn kraftur eða barátta, hálfleikurinn var algjörlega flatur og ekkert fyrir augað því miður. Það fór því þannig að við fengum á okkur tvö frekar ódýr mörk og tap staðreynd. Lokatölur í kvöld 1-2 og ljóst að við þurfum að gera betur til að ná hagstæðum úrslitum í Evrópuleiknum á fimmtudag. Sjáumst þá.
Ég viil sjá alla FRAMara á leiknum á fimmtudag og þá þurfa strákarnir okkar virkilega á ykkur að halda. Mætum í bláu og höfum hátt.
ÁFRAM FRAM