Strákarnir okkar í mfl. karla léku líka í dag en þeir mættu ÍR í Austurberg. Leikurinn í heild var ekki nógu góður að mínu mati, það vantar þennan neista sem var í liðinu í fyrra vetur. Það er eitthvað sem strákarnir þurfa að finna sjálfir og koma með í leik sinn, þessi hrikalega barátta sem var í fyrra og óbilandi trú sem þeir höfðu og skilaði þeim ansi lagt. Mig minnir að ég hafi kallað það hálfgerða geðveiki. Það er í raun það sem vantar núna, því getan er til staðar.
Við lentum strax undir í leiknum í dag, vörnin var ekki að vinna vel maður á mann og því misstum við þá í auðveld skot aftur og aftur. Sóknin var ekki heldur að ganga nógu vel og því vorum við að elta allan fyrri hálfleikinn, stóðum reyndar mjög vel þegar við vorum 3 á móti 6 , þá gerðum við vel. Staðan í hálfleik var 13-11.
Síðari hálfleikur var svipaður þ.e við eltum lengst af en svo vorum við hreinlega klaufar að ná ekki að koma okkur inn í leikinn, við fengum þrjár sóknir þegar um 10 mín voru eftir af leiknum til að jafna og komast yfir en fórum mjög illa með okkar sóknir og nýttu dauðafærin afskaplega illa. Við náðum samt að jafna 20-20 en þá vorum við bölvaðir klaufar að nýta ekki færin. Lokatölur í dag 26-22 tap sem var eins og í síðasta leik mesti munurinn í leiknum. Algjör óþarfi að tapa þessum leik en þurfum að ná fram betri leik til að sigra í svona jöfnum leikjum.
Stefán Darri setti 7 mörk í dag og Stefán Baldvin 4, Kristófer var góður í markinu og varði vel lengst af í leiknum.
ÁFRAM FRAM