Það var fremur kuldalegt í Laugardalnum í dag þegar við tókum á móti Fylki í síðasta leik Íslandsmótsins. Völlurinn í góðu standi að vanda og ekkert því til fyrirstöðu að leika góðan fótbolta.
Fyrri hálfleikur var bara skemmtilegur á að horfa og ágætlega leikinn af okkar hálfu fyrir utan mörkin sem við fengum á okkur sem voru heldur klaufaleg. Svolítið saga sem hefur því miður verið að endurtaka sig í sumar. Við lentum undir á 21 mín eftir slaka varnarvinnu, náðum að jafna á 31 mín þegar Aron Bjarnason gerði laglegt mark eftir flottan samleik , mjög vel gert mark hjá okkur. Við fengum svo á okkur mark á 38 mín beint úr horni sem verður að skrifa á reikning Harðar í markinu en drengurinn átti samt í heldina góðan leik. Við náðum svo að jafna fyrir hálfleik þegar Arnþór Ari gerði laglegt mark á 43 mín. Aftur lékum við vel saman sem skilaði flottu marki. Staðan í hálfleik 2-2.
Á 54 mín síðari hálfleiks fengum við svo á okkur enn eitt markið eftir slaka varnarvinnu, skelfilegt að fá svona mörk á sig drengir. Ósi fékk svo beint rautt spjald á 57 mín sem var að mínu mati algjört bull. En það var eins og þetta rauða spjald efldi okkur frekar en hitt og Guðmundur Steinn setti gott mark á 63 mín. Enn og aftur góður samleikur og mjög gott mark. Það var svo á 81 mín að Guðmundur Steinn gerði sérlega skemmtilegt mark eftir aukaspyrnu. Drengirnir settu upp leikkerfi sem á meira skilt við handbolta, greinilega beint af æfingasvæðinu og gekk svona skemmtilega upp. Mun þetta kerfi heita „hringekjan“ en kerfið inniheldur minnst 6 blokkeringar og innleysingu sem endar á vel tímasettri aukaspyrnu. Vel gert drengir. Við gáfum síðan ekki mikil færi á okkur eftir þetta og kláruðum þennan leik sannfærandi 4-3.
Leikurinn í dag var góður allir leikmenn að berjast á fullu og lögðu sig fram. En því miður var það ekki nóg og niðurstaða dagsins fall í 1. deild. Það er því nýtt umhverfi sem bíður okkar á nýju ári og ljóst að margt á eftir að breytast. Takk fyrir sumarið drengir.
ÁFRAM FRAM