Barna- og unglingaráð Knattspyrnudeildar FRAM og Sjúkraþjálfun Grafarholts hafa gert með sér samstarfssamning sem nær til allra iðkenda deildarinnar.
Þann 5. september sl. opnaði Sjúkraþjálfun Grafarholts nýja stofu sem staðsett er í hverfinu að Jónsgeisla 93. Sjúkraþjálfarar stofunnar eru Gunnar R. Sverrisson og Jóhanna M. Guðlaugsdóttir sem hafa mikla reynsu af meðhöndlun íþróttafólks.
Þjónusta Sjúkraþjálfunar Grafarholts snýr að þeim iðkendum FRAM sem þurfa á mati/ráðgjöf /meðferð að halda. Ef og þegar meiðsli koma upp þá hefur þjálfari, iðkandi eða aðstandandi iðkanda beint samband við sjúkraþjálfara stofunnar til að fá tíma. Gunnar / Jóhanna s. 588-0340.
Byrjað er á að greina/meta vandamálið með skoðun á stoðkerfinu, síðan hefst meðferð ef þörf er á og fræðsla varðandi vandamálið. Sjúkraþjálfari mun veita viðkomandi þjálfara nákvæmar upplýsingar um stöðu og gang mála og hafa þeir samráð um hvernig æfingum skuli háttað. Markmiðið er að upplýsingar komist milliliðalaust beint til þjálfara til að tryggja árangur af meðferð og endurkomu iðkanda.
Kostnaður fyrir hverja komu í sjúkraþjálfun er samkvæmt taxta félags sjúkraþjálfara við Sjúkratryggingar Íslands frá 1. janúar 2015. Hver skoðun kostar 1.287 kr. og hver meðferð 1.189 kr. og greiðist af iðkanda.
Þetta samstarf kemur Knattspyrnudeild FRAM og iðkendum sérlega vel þar sem stofan er staðsett í hverfinu og um leið beinir félagið viðskiptum sínum að fyrirtæki í hverfinu.