Á hverju ári heldur Knattspyrnufélagið FRAM, í samstarfi við KSÍ, unglingadómaranámskeið sem í ár verður haldið þann 26. mars nk. kl. 19:30 í Úlfarsárdalnum.
Námskeiðið stendur í um tvær og hálfa klukkustund og er öllum opið sem náð hafa 15 ára aldri.
Á námskeiðinu 26.mars nk. verður lögð aðaláhersla á knattspyrnulögin en auk þess verður einnig farið yfir ýmis konar kynningarefni, fræðsluefni, skýringar og skýringarmyndir.
Námskeiðinu lýkur með skriflegu prófi viku síðar.
Námskeiðið er ókeypis.
Sá sem lýkur unglingadómaraprófi hefur rétt á að dæma í 4. flokki og neðar ásamt því að vera aðstoðardómari upp í 2. flokk.
Knattspyrnudeild FRAM heldur áfram að stækka og það eru margar skyldur sem þarf að uppfylla í starfinu. Krafa Knattspyrnusambands Íslands er að FRAM hafi tilskilinn fjölda virkra menntaðra dómara á hverju tímabili. Það þarf að gera mikið átak til að ná því markmiði og fjölga dómurum í deildinni okkar svo við uppfyllum kröfur um að senda allan þann fjölda liða sem við þurfum til keppni á Íslands- og bikarmót KSÍ. Iðkendum félagsins fjölgar stöðugt, liðunum sem send eru til keppni fjölgar þar með líka sem þýðir að við þurfum öfluga sveit dómara til þess að allir þessir leikir geti farið fram.
Þó það sé kostur þá er það alls ekki skilyrði að knattspyrnudómarar hafi spilað knattspyrnu.
Dómgæsla fyrir félagið veitir rétt á dómaraskírteini KSÍ sem er jafnframt frímiði á alla leiki í mótum á vegum KSÍ þar með talið landsleiki. Til þess að fá slíkt dómaraskírteini og halda því virku þarf að dæma tilskilinn fjölda leikja (10-15 á ári).
Sú nýbreytni var auk þess tekin upp í vetur hjá okkur í FRAM að foreldrum gefst nú kostur á að lækka æfingagjöld barna sinna með því að aðstoða við dómgæslu í leikjum yngri flokka félagsins:
Fimm dómgæslustörf foreldris lækka æfingagjald um sem nemur kr. 10.000-.
- Dómgæsla í 11 manna bolta (4.flokkur og eldri) telst vera eitt starf. Dæma þarf fimm leiki til þess að æfingagjald lækki um sem nemur kr. 10.000-.
- Dómgæsla í 7 manna bolta (5.flokkur) telst vera hálft starf. Dæma þarf tíu leiki til þess að æfingagjald lækki um sem nemur kr. 10.000-.
- Aðstoðardómgæsla í 11 manna bolta telst vera hálft starf. Sinna þarf aðstoðardómgæslu í tíu leikjum til þess að æfingagjald lækki um sem nemur kr. 10.000-.
Áhugasamir hafi samband á dadi@fram.is.