Strákarnir okkar í mfl. ka. mættu í kvöld ÍR-ingum í 24. umferð Olísdeildarinnar. Það var vel mætt að vanda í Austurbergið frá báðum liðum en svo sem ekki mikil stemming. Leikurinn í heild var frekar rólegur, ekki mikill hraði í honum og varnarleikurinn í fyrirrúmi. Það er leikur sem hentar okkur vel.
Það var jafnt á flestum tölum til að byrja með þó voru ÍR-ingar heldur með frumkvæðið, 4-3 eftir 10 mín og 8-6 eftir 20 mín. Mér fannst eins og það væri smá skrekkur í mannskapnum og við ekki að leika vel. En við náðum aðeins að rétta okkar hlut fyrir hálfleik og staðan í hálfleik 12-12. Vorum í raun klaufar að vera ekki yfir í hálfleik. Það var því alls ekki ástæða til að örvænta og spenna í loftinu hjá stuðningsmönnum FRAM.
Drengirnir mættu betur stemmdir til leiks í síðari hálfleik og tóku strax frumkvæðið þó þeir næðu ekki að hrista andstæðingana af sér. Staðan eftir 40 mín 15-15 og við bölvaðir klaufar eftir að hafa verið tveimur fleiri. En við héldum haus og stóðum vörnin vel ásamt því að Krístó varði vel. Staðan eftir 50 mín 17-20 og útlitið gott. Við héldum svo haus það sem eftir var, náðum mest 4 marka forrustu 18-22 þegar 5 mín voru eftir og kláruðum leikinn. Lokatölur í kvöld 21-24, mjög mikilvæg stig í hús.
Leikurinn í heildina var ekkert sérlega skemmtilegur, við spiluðum vel á köflum en svo var eins og við misstum svolítið kjarkinn á milli. Vörnin stóð sig vel og Kristófer var góður að vanda. Við börðumst allan tímann og það var barátta og liðsheildin sem vann þennan leik í kvöld. Glæsilegt drengir.
Næsti leikur er svo eftir viku gegn FH í Krikanum Sjáumst þá.
ÁFRAM FRAM