fbpx
Sigurbjörg og Ásta vefur

Að lokinni deildarkeppni og við upphaf úrslitakeppni kvenna

Mfl.kv. 2014-2015Nú þegar deildarkeppni OLÍS deildarinnar er lokið er rétt að rifja aðeins upp gengi meistaraflokks kvenna FRAM í vetur.
Liðið hóf leik af miklum krafti í haust og sigraði í hverri viðureigninni á fætur annarri framan af vetri.  Um áramót hafði liðið spilað 10 leiki í deildinni og sigrað í þeim öllum og var á toppi deildarinnar.  Árið 2015 hófst hins vegar ekki alveg nógu vel.  Tap í fyrsta leik eftir áramót. En liðið náði sér fljótt á strik aftur.  Niðurstaðan í vetur er annað sæti í deildinni.  Sigur í 17 af 22 leikjum, tvisvar jafntefli og tap í þremur leikjum, sem verður að teljast flottur árangur, einungis tveimur stigum á eftir toppliðinu.
Árinu 2014 lauk með sigri á liði Stjörnunnar í deildarbikarkeppni HSÍ milli jóla og nýárs.
Einnig varð liðið Reykjavíkurmeistari í haust.
Að venju tók liðið þátt í evrópukeppninni.  Fyrst sigraði FRAM lið frá Grikklandi næsta örugglega í haust.  Í febrúar fór FRAM síðan til Serbíu og lék þar tvo leiki og tapaði með minnsta mun og féll því úr leik.
Úrslitakeppnin
Nú stendur fyrir dyrum úrslitakeppnin sem sker úr um það hvaða lið hampar Íslandsmeistarabikarnum í vor.  Í 8 liða úrslitum leikur FRAM við lið Fylkis sem endaði í 7. sæti OLÍS deildarinnar.  Ljóst að þar verður FRAM að eiga góða leiki til að fara með sigur af hólmi.  Fylkisliðið hefur á að skipa ungu og spræku liði sem er síður en svo auðsigrað.
FRAM liðið er hins vegar mjög vel skipað, þó að vissulega hafi liðið orðið fyrir áföllum í vetur, meðal annars vegna meiðsla Sigurbjargar sem hafði leikið einstaklega vel fram að því að hún meiddist og var valinn besti leikmaður fyrri hluta mótsins.  FRAM liðið ætti því að fara fullt sjálfstraust í þessa rimmu við Fylki.
Þessi árangur sem FRAM hefur náð í vetur, svo og undanfarin ár er þó ekki sjálfgefinn.  Hann er tilkominnn vegna endalausrar vinnu leikmanna FRAM, þjálfara og annarra sem standa að liðinu.  Ef FRAM vill verða áfram í fremstu röð í handbolta kvenna, þá má þar hvergi slaka á og halda áfram þessari þrotlausu vinnu sem hefur verið unnin á undanförnum árum og halda áfram að styðja vel við núverandi leikmenn liðsins og skapa þeim aðstæður til að iðka íþrótt sína eins vel og hægt er og styðja yngri leikmenn til að ná lengra svo að þeir geti tekið við keflinu og haldið merki kvennahandbolta í FRAM hátt á lofti á komandi árum.

Fyrsti leikurinn í 8 liða úrslitum gegn Fylki er:
Mánudaginn 6. apríl 2015 – annan í páskum –  í Íþróttahúsi FRAM í Safamýri og hefst kl. 19:30

Með handboltakveðju
ÁFRAM FRAM

Vatnsberinn

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!