Nú eftir hádegið skelltu stelpurnar okkar í mfl. kvenna sér suður með sjó þar sem þær mættu Keflavík í Lengjubikarnum. Leikið var í Reykjaneshöll, logn og blíða í höllinni, algjör lúxus að eiga svona fótboltahús, eitthvað sem við FRAMarar þurfum að eignast.
Ég hef nú því miður ekki miklar upplýsingar um gang leiksins en við vorum ekki að spila vel í fyrri hálfleik, erum í smá vandræðum með hópinn og mikið af forföllum í dag. Það voru til að mynda 3 leikmenn úr 3 fl. sem hófu leik í dag sem er reyndar frábært, virkilega gaman að sjá uppeldisstarfið vera að skila sér alla leið í meistaraflokk. Flott reynsla fyrir okkar ungu stelpur að fá að spila svona leiki. Við fengum á okkur eitt mark í fyrri hálfleiknum og staðan í hálfleik 1-0.
Síðari hálfleikur gekk ágætlega, við börðumst vel og lögðum okkur fram allan leikinn. Við fengum á okkur annað mark fljótlega í hálfleiknum en það braut okkur ekki og við náðum loks að setja mark á loka mínútu leiksins, það var Birna Sif Kristinsdóttir sem gerði mark FRAM, fínt mark, en kom helst til of seint. Lokatölur í leiknum 2-1 tap.
Það er stutt í næsta leik sem verður í Safamýrinni á þriðjudag kl. 20:00, endilega kíkið við.
ÁFRAM FRAM