fbpx
Liðsmynd Reykjavíkurmeistarar 2015 3. ka

FRAM Reykjavíkurmeistari í 3 fl.ka.

Liðsmynd Reykjavíkurmeistarar 2015 3. kaFram urðu í gær Reykjavíkurmeistarar í 3. flokki karla A 2015 eftir frækinn 6-1 sigur á öflugu liði Víkings á heimavelli Fram í Úlfarsárdal. Þetta var 22. Reykjavíkurmeistaratitill Fram í 3. Flokki frá upphafi þeirrar keppni.

Fyrir leikinn var ljóst að Fram þyrfti á sigri að halda til að landa titlinum þar sem KR var búið að leika alla sína leiki, með sex sigra og eitt tap, en Fram var fyrir leikinn á móti Víkingum með fimm sigra og eitt tap en töluvert betri markatölu á KR. Fyrir leikinn gerðu þjálfararnir Lalli og Villi taktíska breytingu á liðsuppstyllingu með því að færa hinn eldfljóta Óla Anton aftur í hægri bakvörð af hægri kanti og hinn útsjónarsami og leikni bakvörður Unnar Steinn fór fram á hægri kant. Þessi víxlun leikmanna á hægri vængnum átti eftir að reynast liðinu vel. Líkt og í öðrum leikjum Framara í Reykjavíkurmótinu stjórnuðu þeir leiknum frá fyrstu mínútu og fór leikurinn að mestu leiti framm á vallarhelmingi gestanna. Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á elleftu mínútu þegar fyrirliðinn Magnús Snær skorar með hnitmiðuðu skoti  utarlega úr vítateignum eftir góða stoðsendingu frá Trausta Frey. Eftir fyrsta markið féllu Víkingar en aftar og annað markið kom ellefu mínútum síðar þegar Magnús Snær rennir boltanum á milli tveggja varnarmanna  á Unnar Stein sem afgreiðir boltann í hornið fjær, óverjandi fyrir annars góðan markvörð Víkinga. Á þrítugustu mínútu var komið að hinum magnaða markaskorara ,Helga Guðjónssyni, að setja sitt mark á leikinn er hann skorði eftir góða stungu inn fyrir vörnina frá Axel Frey. Dæmigert mark hjá Helga þar sem hann var með tvo varnarmenn sem farþega á bakinu alla leið inn í teig, en nær þrátt fyrir það að leika á markvörðinn og setja boltann örgglega í netið. Hans 19. mark í Reykjavíkurmótinu og endaði þar með langmarkahæstur – og það þriðja árið í röð.  Seinni hálfleikur byrjaði líkt og sá fyrri með hárri pressu Framara og ekki leið á löngu þar til fjórða markið leit dagsins ljós eftir flottan sprett Óla Antons upp hægri kantinn og alveg upp að endamörkum, gaf hann boltann út á Magnús Snæ sem var einn á auðum sjó og hamraði knettinum í fjær hornið. Framarar létu ekki þar við sitja og létu kné fylgja kviði tveimur mínútum síðar þegar Helgi Guðjónsson tók sprett upp vinstri kantinn upp að endamörkum hvar hann gaf fyrir á Trausta Frey sem skoraði úr þröngu færi í nærhornið. Trausti var svo aftur á ferðinni  nokkrum mínútum síðar þegar hann fékk stungusendingu frá Axel Frey út til vinstri og renndi boltanum af miklu öryggi fram hjá marverðinum í fjærhornið. Framarar hefðu getað bætt við mörkum, þar sem nokkur góð færi þeirra fóru forgörðum. En í staðinn náðu Víkingar, gegn gangi leiksins, að klóra í bakkann með marki beint úr aukaspyrnu undir lokin. Þegar dómarinn flautaði til leiksloka brutust út gríðarleg fagnaðarlæti Framara sem fögnuðu þessum Reykjavíkurmeistaratitli vel og innilega.

Baldur markvörður var öryggið uppmálað í markinu og hefur það sjálfstraust sem til þarf í þessa stöðu. Hann hefur sýnt það oft á tíðum í vetur hversu öruggur hann er undir pressu frá sóknarmönnum andstæðinga. Það reyndi ekki mikið á markvörsluna í þessum leik en þau skot sem komu greip Baldur vel og varði eitt slíkt á stórkostlegan hátt yfir slána undir lok leiksins. Aukaspyrnumarkið sem hann fékk á sig voru í raun einu markmannsmistökin sem hann gerði allt mótið. Vörnin var þétt, eins og hún er búin að vera allt mótið, með grjótharða hafsentana Danna og Viktor Gísla sem stóðu af sér þau áhlaup Víkinga sem komu. Þeir láta enga andstæðinga eiga neitt inni hjá sér. Alli kom inn á eftir að tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik fyrir Viktor Gisla og steig ekki feilspor. Það er fjölhæfur drengur sem hefur  spilað flestar stöður í varnarlínunni í Reykjavíkurmótinu í öllum leikjum í byrjunarliði eða komið af bekknum – og skilað sínu hlutverki með glæsibrag. Bakverðirnir Óli Anton og Steini áttu mögulega sína lang bestu leiki í þessu móti. Það er ómetanlegt að hafa svona snögga, leikna og sterka menn  í þessum stöðum eins og þeir sýndu á móti Víkingi. Þeir voru eldfljótir aftur þegar á reyndi og gríðarlega öflugir framm á við með hraða sínum. Miðjan var fanta þétt og vinnusemi þeirra þriggja sem þar ráða ríkjum er frábær. Már var yfirvegaður og öruggur á boltann og virtist alltaf finna réttar sendingar á samherja, einnig var hann sterkur varnarlega. Axel  Freyr og Magnús Snær eru stöðugt skapandi  fram á við og börðust um hvern bolta þar sem þeir höfðu oftast nær betur í þeirri baráttu.  Stungusendingarnar eru af sama skapi eitraðar frá þeim og hefur framlínan oft notið góðs af því í vetur.  Um miðjan síðari hálfleik leysti Magnús Ingi, Axel af hólmi og stóð sig vel en var óheppin að skora ekki úr fínu færi sem hann fékk. Maggi Ingi hefur komið öflugur inn af bekknum í vetur og býr yfir miklum leikskilningi og boltatækni.  Kantarnir voru áttu magnaðan leik þar sem Unnar Steinn fór á kostum í fyrri hálfleik með hraða sínum og tækni. Hann olli oft á tíðum miklum usla inni í teig Víkinga og var stöðugt ógnandi. Trausti Freyr tók svo við hressilega við sér í seinni hálfleik og var stöðugt ógnandi með hraða sínum, styrk og staðsetningum. Dagur Ingi og Halli komu inná sitthvorn kanntinn í síðari hálfleik og beittu sér af miklum krafti fram á við. Dagur Ingi er öskufljótur og getur stungið af hvaða bakvörð sem er þegar sá gállinn er á honum. Hann sýndi frábæra varnartilburði með því að hlaupa uppi vinstri kantmann Víkinga og bjarga í horn. Halli er tekknískur, útsjónarsamur og fjölhæfur leikmaður. Það myndast ætíð flott spil í kringum hann og var þessi leikur engin undantekning á því. Einn albesti framherji landsins í 3. flokki karla, Helgi G, var stöðugt ógnandi eins og endranær. Hann hélt boltanum vel og var iðulega með tvo varnarmenn í kring um sig þegar hann var með boltann. Þrátt fyrir þessa stífu dekkun skoraði hann eitt mark og lagði upp annað.  Þessari frábæru liðsheild er svo stýrt af hinu magnaða þjálfarateymi, Lalla og Villa. Þeir hafa látið liðið spila gríðarlega árangursríkan og skemmtilegan sóknarbolta allt Reykjavíkurmótið – og eru sennilega með best þjálfuðu knattspyrnumennina á landinu i þessum aldurflokki.

Að þessu rituðu er full ástæða til væntinga um frábæranárangur hjá Frömurum á Íslandsmótinu komandi sumri.

ÁFRAM FRAM

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!