Kristinn R. hættir af persónulegum ástæðum
Kristinn Rúnar Jónsson þjálfari Fram hefur beðist lausnar frá störfum sem þjálfari 1. deildar liðs Fram af persónulegum ástæðum. Hann tilkynnti leikmönnum félagsins þetta eftir leik liðsins gegn Þór í gær og voru þeir vitanlega slegnir yfir tíðindunum. „Ég hef þjónað Fram í tæplega 30 ár og nú ætla ég að láta mig ganga fyrir,“ segir Kristinn R. í samtali við heimasíðu Fram. „Það gefur þó auga leið að þetta var ekki létt ákvörðun fyrir mig enda Íslandsmótið nýhafið og hópurinn okkar farinn að taka á sig rétta mynd. Ég þakka stjórn knattspyrnudeildar Fram fyrir að bregðast vel við minni beiðni um að fá að hætta og er mjög sáttur við eftirmanninn. Þar er toppmaður á ferð og hann fær flottan hóp til að vinna með.“
Pétur Pétursson tekur við
Það verður Pétur Pétursson sem tekur við þjálfarastarfinu af Kristni Rúnari og var Pétur kynntur fyrir leikmönnum Fram á æfingu í hádeginu í dag. Kristinn verður Pétri innan handar fyrstu dagana og munu þeir báðir stýra liði Fram í bikarleik gegn Gróttu á þriðjudaginn.
Pétur er óþarft að kynna fyrir knattspyrnuáhugamönnum. Undanfarin ár hefur hann verið aðstoðarþjálfari úrvalsdeildarliðs KR og landsliðsins auk þess að þjálfa 2. flokk karla hjá KR og Breiðablik. Þá hefur hann verið aðalþjálfari meistarflokks hjá KR, Keflavík og Víkingi.
Pétur átti frábæran feril sem leikmaður með ÍA, KR, Feyenoord, Anderlecht, Antwerpen og Hercules á Spáni auk íslenska landsliðsins.
Knattspyrnufélagið Fram þakkar Kristni R. Jónssyni frábært starf fyrir félagið. Um leið býður Fram Pétur Pétursson velkominn til starfa hjá félaginu.
Knattspyrnudeild FRAM