Bandaríski varnarmaðurinn Sebastien Ibeagha hefur náð samkomulagi við Fram um að leika með félaginu í sumar. Hann fékk leikheimild með Fram í dag. Sebastien sem er 23 ára hefur verið á mála hjá 1. deildarliði Horsens í Danmörku undanfarið eitt og hálft ár. Hann lék 19 leiki með Horsens árið 2014 áður en hann var lánaður til Fredericia sem einnig leikur í dönsku 1. deildinni en þar lék hann 16 leiki.
Sebastien hefur spilað 7 leiki með U20 ára landsliði Bandaríkjanna auk vináttulandsleikja með U23. Hann hefur verið valinn í úrvalslið háskólaboltans í Bandaríkjunum og einu sinni verið valinn varnarmaður ársins í vesturdeild háskólaboltans. Hér er því á ferðinni hörku leikmaður sem mun án efa styrkja lið Fram í baráttunni í 1. deildinni í sumar.
Fyrir helgi fékk markvörðurinn Cody Mizell leikheimild með Fram en hann hefur einnig spilað með yngri landsliðum Bandaríkjanna og var m.a. á samningi hjá West Ham 2008. Cody sem er 24 ára hefur leikið með Atlanta Silverbacks og Tampa Bay Rowdies sem bæði leika í NASL-deildinni sem er næstefsta deild í Bandaríkjunum.
Báðir þessir leikmenn munu leika með Fram á Laugardalsvelli á laugardaginn þegar liðið tekur á móti Fjarðarbyggð í sínum fyrsta heimaleik á tímabilinu.