Fyrsti leikur Íslandsmótsins 2015 var leikinn í dag og var leikið gegn skemmtilegu liði Víkinga frá Ólafsvík. Leikurinn fór fram á Úlfarsárdalsvellinum. Aðstæður voru mög góðar til knattspyrnuiðkunar, léttur sunnan vindur í fyrri hálfleik og norðan í þeim seinni. Það má því segja að okkar stúkur hafi verið með vindi allan leikinn og skilaði það sér í glæstum sigri. Fyrsta markið kom á 13. mínútu fyrri hálfleiks eftir gott samspil og svo langskot af um það bil 35 metra færi. Markið gerði Dagmar Ýr Arnardóttir. Skömmu síðar fengum við vítaspyrnu eftir brot innan teigs og tók Dagmar Ýr spyrnuna og munaði einungis tveimur sentimetrum að boltinn hefði farið sláin inn, í stað þess varð það sláin út í þetta skipti. Staðan í hálfleik var því 1-0 fyrir okkar stelpur.
Í seinni hálfleik hófu okkar stelpur leikinn á fullum krafti og á 71. mínútu bættu Framstelpur við öðru marki beint úr hornspyrnu, en þar var að verki Anna Marzellíusardóttir. Lokatölur leiksins voru 2-0.
Greinilegt var þó að enn var liðið að spila sig saman. Gaman var að sjá hversu vel nýju leikmennirnir okkar komu inn í liðið og verður enn skemmtilegra að sjá framhaldið þegar liðið verður búið að spila sig saman. Sumarið verður spennandi og hvetjum við alla Framara til að kíkja á völlinn og styðja okkar stelpur til sigurs í hverjum leik.
Nokkrar ungar og efnilegar uppaldar Framstelpur voru að leika sína fyrstu leiki í Íslandsmóti fyrir Fram og verður sérstaklega gaman að fylgjast með þeim í sumar. En þetta voru þær Ester Ruth Aðalsteinsdóttir, Heiðrún Dís Magnúsdóttir og Emilía Britt Einarsdóttir og auk þess var Jenný Júlíusdóttir á bekknum hjá okkur í dag.
Við þökum Ungmennafélaginu Víkingi frá Ólafsvík fyrir leikinn og þeir lengi lifi.
Áfram FRAM og allir á völlinn!