Enn og aftur var rjómablíða í Úlfarsárdalnum þegar við fengum KA í heimsókn. Fólk var frekar seint að mæta og fáir mættir þegar stutt var í leik, það rættist úr því og var stúkan þétt setin svona að ¾ þegar líða tók á leikinn. Gaman að sjá allt þetta fólk sem er núna á öllum aldri og lætur í sér heyra. FRAMarar eru flottastir en það er pláss fyrir fleiri. Látið það berast.
Fyrri hálfleikurinn í dag var ekki góður af okkar hálfu, við undir í flestum þáttum leiksins og einhver deyfð yfir okkar leik. Drengir það vantar algjörlega þetta að leggja sig allan í leikinn og bíta frá sér, þetta er bara hugarfar og það þarf að laga. Vinna tæklingar, návígi, vera á undan í boltann og hreyfa sig án bolta, þetta getum við allt bætt auðveldlega. Þessir þætti löguðust mikið í síðari hálfleik þannig að þetta er bara hugarfar.
Við fengum varla færi fyrstu 30 mín leiksins og voru ekki líklegir. Við fengum á okkur mark á 22 mín og það lá hreinlega á okkur. Það lifnaði aðeins yfir okkar leik og við náðum ágætum sóknum fyrir hálfleik og hefðum átt að fá víta á 34 mín en þá fór boltinn í hendi leikmanns KA en aðstoðardómarinn sagðist aldrei dæma víti á leikmann sem væri að detta ? Gaman að hlusta á skýringar dómara þegar maður situr svona nálægt leiknum. Staðan í hálfleik 0-1. Við slakir í fyrri hálfleik.
Síðari hálfleikur var mun betri af okkar hálfu og allt annað að sjá leikmenn berjast um boltann, vinna návígi, þurfum að gera meira af þessu, það skilar alltaf árangri. Við náðum sem sagt betri tökum á leiknum, settum meiri pressu á KA og fórum að skapa færi. Hefðu kannski átt að fá víti á 60 mín en erfitt að segja til um það en Brynjar Ben var klárlega tekinn niður um leið og hann náði skoti á marki en inn vildi boltinn ekki, þrátt fyrir góða tilraun Magga Lú en hann setti boltann í þverslá. Við náum svo að jafna leikinn á 77 mín. þegar Ingibergur skallaði í netið eftir aukaspyrnu frá Magga Lú, vel útfært hjá okkur og gott mark. KA missti leikmann af velli á 80 mín og við því manni fleiri, það virtist ekki hjálpa okkur mikið og KA sótti heldur meira. Á 90 mín. slapp svo Alexander einn í gegn og hann klárlega tekinn niður, ekkert dæmt og í framhaldinu kóronaði slakur dómari leiksinns frammistöðu sína með því að gefa Alexander rautt fyrir kjaft brúk. Skelfilegt þegar dómara sleppa svona brotum og þurfa svo að rífa upp rauðakortið, margföld refsing á okkar lið. Þessi ágæti dómari missti sem sagt algjörlega tökin á þessu leik og þarf eitthvað að læra heima fyrir næsta leik. Við náðum að gera mark á loka mín. leiksins eftir að markvörður KA missti boltann, Tryggvi mokaði boltanum í netið ekkert fallegt við markið en heldur ekkert ólöglegt, markið dæmt af, af einhverjum ástæðum sem mér eru algjörlega óljósar. Lokatölur í dag 1-1. Fúlt að fá ekki meira úr þessum leik en við þurfum að leggja meira á okkur til að uppskera sigur, við getum það klárlega og þurfum að gera það, þá fer þetta að detta með okkur. Gott stig eftir allt og nú þurfum við að leggja allt í næsta leik og þá allan leikinn. Næsti leikur er í Úlfarsárdalnum á laugardag gegn Þór, sjáumst þá.
ÁFRAM FRAM
Hörður Einarsson “Kastró” var á vellinum í dag eins og venjulega en karlinn átti 75 ára afmæli í dag og við FRAMarar óskum honum innilega til hamingju með daginn. Njóttu dagsins mikli FRAMarari.