Strákarnir okkar mættu bleikum ÍR-ingum í Olísdeildinni í handbolta í kvöld en leikið var í Austurbergi. Það var ágætlega mætt á leikinn en ekki mikil stemming í húsinu.
Við FRAMarar byrjuðum leikinn í kvöld ágætlega, við náðum fljótlega ágætri forrustu og vorum yfir fimm mörk eftir 8 mín. en staðan eftir 10 mín. 3-7. Þá tók við slakur kafli hjá okkar mönnum og við gerðum 3 mörk á næstu 10 mín. eða svo, ÍR náði að jafna leikinn og við með marga tapaða bolta. Staðan eftir 20 mín. 10-10. Það sem eftir lifði hálfleiks skiptust liðin á að leiða en við náum að klára hálfleikinn með flottu marki þegar lokaflautið gall. Staðan í hálfleik 13-14. Liðið að spila ljómandi vel á köflum en þurfum aðeins að ná tökum á sjálfum okkur og laga varnarleikinn.
Við byrjuðum síðari hálfleikinn vel og náðum strax yfirhöndinni í leiknum og leiddum leikinn og bættum við mörkum jafnt og þétt. Staðan eftir 40 mín. 16-19. Við héldum áfram að spila okkar leik, stóðum vörnina vel að mestu og sóknarleikurinn gekk alveg þokkalega. Staðan eftir 50 mín. 22-24. Við bættum við næstu mínútur og maður var farinn að halda að við myndum landa léttum sigri, en það fór ekki svo. Við hættum að sækja á markið af fullum krafti og andstæðingarnir gengu á lagið og náðu að jafna leikinn 26-26 þegar 4 mín. voru eftir. Pressan var því kominn á okkar lið, við stóðumst þá pressu vel og rifum okkur afstað enda ekki um annað að ræða. Við kláruðum næstu sókn með marki og unnum svo vel í vörninni. Arnar Snær setti svo síðasta markið þegar um 20 sek. voru eftir og góður sigur í höfn. Virkilega góður sigur og mér fannst hann sanngjarn. Við unnum vel fyrir þessum stigum í kvöld margir leikmenn að skila mörkum, margir leikmenn að spila betur en undanfarið og ég held að við séum á réttri leið núna. Við þurfum samt að halda okkur við skipulagið og byggja ofan á það sem við höfum verið að sýna á undanförnum leikjum. Vel gert drengir og tvö stig í húsi. Næsti leikur er á heimavelli á fimmtudag en þá fáum við UMFA í heimsókn í Safamýrina, endilega látið sjá ykkur á þeim leik.
ÁFRAM FRAM