Námskeiðið hefst kl. 20:00, í veislusalnum í Safamýri, á bóklegum hluta, sem stendur í einn og hálfan tíma. Síðan er stutt hlé og þar á eftir er hálftíma bóklegt próf. Ekki er þörf á að skrá sig sérstaklega.
Námskeiðið er opið öllum sem verða 15 ára á árinu 2016, eða eru eldri.
Allir eru hvattir til að mæta.
Námskeiðin styrkja leikmenn í reglum leiksins og auka mikið leikskilning. Það eru margar og flóknar reglur í handbolta og það gefur leikmanni og liði mikið forskot að leikmenn kunni góð skil á reglunum.
Til að fá skráningu sem fullgildur A dómari þarf einnig að taka verklegan hluta. Leikmenn sem hafa áhuga á því geta tekið verklega hlutann með að dæma í fjölliðamóti hjá Fram, sem verður í lok janúar. Öllum sem standast bóklega hlutann er boðið að taka verklega hlutann, með því að dæma á mótinu. Verklegi hlutinn felst í að dæma 2 leiki, með vottuðum B eða C dómara.
Eingöngu þeir sem hafa tekið viðeigandi dómarapróf mega dæma leiki hjá Fram.
A dómara réttindi eru forsenda þess að dæma leiki í 8, 7, 6 og 5 flokki.
Foreldrar eru sérstaklega hvattir til að mæta á námskeiðið. Bæði til að læra reglurnar en einnig ef áhugi er á að aðstoða við dómgæslu á leikjum yngri flokka. Það vantar alltaf dómara með réttindi.
Bóas Börkur ,okkar Fram dómari í meistaraflokki, kennir og leggur fyrir bóklega prófið.
Sjá nánar úrklippu um A stigs dómara hjá HSI:
“2.gr. A-stigs dómarar ” “Til þess að hljóta réttindi sem A-stigs dómari þarf dómaraefnið að verða 15 ára á árinu og hafa sótt sérstakt námskeið fyrir A-stigs dómara á vegum dómaranefndar HSÍ í samráði og samvinnu við félögin. Námskeið fyrir A-stigs dómara skulu haldin að minnsta kosti tvisvar sinnum á ári. Dómaraefni skal standast skriflegt próf og sýna fram á verklega kunnáttu hjá sínu félagi. A-stigs dómari hefur rétt til að dæma leiki frá og með 8.flokki til og með 5.flokki.”
Unglingaráð handknattleiksdeildar FRAM