Stelpurnar okkar í handboltanum léku í kvöld í 16 liða úrslitum Coca Cola bikarsins, leikið var gegn UMFA í Mosó. Það var eins og venjulega, góður kjarni af okkar fólki á staðnum en ekki mikill áhugi í Mosfellsbænum á þessum leik. Þetta er annar leikurinn í röð sem við FRAMarar leikum þar sem enginn blaðamaður er mættur, þeir virðast bara ekki hafa mikinn áhuga á kvenna handbolta.
Leikurinn í dag var dálítið eins og við var að búast, við erum hreinlega með miklu betra lið en UMFA og ljóst frá upphafi hvert stefndi. Við náðum fljótlega forrustu í leiknum og létum hana aldrei af hendi eftir það, það var bara spurning hve stór sigurinn yrði. Við sýndum svo sem engann stórleik í fyrri hálfleik, staðan í hálfleik 7-13.
Við mættum mjög einbeittar til leiks eftir hlé og kláruðum leikinn algjörlega á fyrstu 10 mín. síðari hálfleiks, staðan eftir c.a 40 mín, 9-21. Eftir það bættum við aðeins við en misstum aðeins þráðinn síðustu 10 mín. leiksins, lokatölur 15-29. Það fengu allir að spila í kvöld og ljóst að Stefán var að dreifa álaginu fyrir erfiðan leik á laugardag. Hekla og Marthe gerður 5 mörk hvor, Hulda var með 4 mörk, aðrar voru með eitthvað minna. Það verður dregið í bikarnum á morgun og fróðlegt að sjá hvaða lið mætir okkur næst. Næsti leikur í Olísdeildinni verður svo á laugardag, hörkuleikur gegn Haukum að Ásvöllum, sjáumst þá.
ÁFRAM FRAM