fbpx
Bikarinn a loft

Fyrsti Reykjavíkurmeistaratitillinn í knattspyrnu kominn í hús

IMG_3121Það eru 10 ár síðan Fram tefldi síðast fram B-liði í 2. flokki karla, þar til nú í vetur er B-lið var skráð til leiks í Reykjavíkurmótið að nýju vegna mikillar fjölgunnar í flokknum þegar stór árgangur ´99 drengja gekk upp um flokk. Ekki einvörðungu var þetta stór hópur heldur líka sterkur, eins og árangur hans ber með sér frá því á síðasta tímabili (Reykjavíkurmeistaratitill A-liða, Bikarmeistaratitill 3. flokks kk. og Barcelona summercup meistarar) þar sem stór hluti þessa hóps bar hitan og þungan af árangri þess liðs ásamt öflugum leikmönnum úr ´00 árgangnum.

B-lið Fram gerði sér lítið fyrir og rúllaði upp B-deildinni í Reykjavíkurmótinu með fádæma yfirburðum, unnu alla sína leiki – og flesta þeirra stórt. Fór vel á því að hampa titlinum á heimavelli erkifjenda Framara með 0-10 sigri á KR á sunnudaginn var. Í síðustu tveimur leikjum liðsins í Reykjavíkurmótinu skoruðu leikmenn Fram 23 mörk og fengu á sig 2 mörk, en í heildina skoruðu þeir 36 mörk og fengu á sig 9 mörk í öllum leikjum. Markaskorunin skiptist á milli 12 leikmanna þar sem Óli Anton Bieltvedt var markahæstur í liðinu með 7 mörk og næstur kom Magnús Ingi Þórðarson með 6 mörk. Eftir á að hyggja hefði sennilega verið vænlegra fyrir Framara að skrá B-liðið í Reykjavíkurmót A-liða, til að leikmenn þess gætu fengið áskorun við hæfi. Eins og gefur að skilja eru slíkir yfirburðir lítt gagnlegir til framfara fyrir liðsmenn, þó vissulega sé ánægjulegt að hampa titlum.

Svo vitnað sé í Lárus Grétarsson: ,,Á árunum 2000-2006 var Fram sigursælt í B-liða keppninni [Reykjavíkurmótsins]. Má segja að þeir hafi átt þennan bikar en svo ákváðu þeir bláu að „lána“ bikarinn í 10 ár og spila ekki með B-lið [vegna manneklu] en nú var komið að því að fá bikarinn okkar til baka á því góða ári 2016.“

Af A-liði 2. flokks karla er það að frétta, að þeir hafa verið á góðu skriði í undanförnum þremur leikjum (þar af einn æfingaleikur á móti HK) þar sem góðir sigrar unnust eftir annars rólega byrjun á Reykjavíkurmótinu. Mikill stígandi er í leik liðsins og hafa leikmenn æft vel í vetur undir dyggri handleiðslu þjálfaranna Hauks Hilmarssonar og Vilhjálms Þórs Vilhjálmssonar, auk þess hefur Ari Elberg styrktarþjálfari verið með allan 2. flokkinn í styrktarþjálfun tvisvar í viku í vetur. Styrktaræfingarnar eru klárlega að skila sér inn á vellinum, þar sem okkar menn eru oftast nær mun vörpulegri og stöndugri en andstæðingarnir í flestum návígum sem koma upp í leikjum liðanna.

Miðað við leik- og líkamlegtform hópsins er ekki hægt annað en að hlakka til sumarsins og vænta góðs árangurs í Íslandsmótinu hjá bæði A- og B-liði. 2. flokkur hefur á að skipa allnokkrum gríðarlega efnilegum knattspyrnumönnum sem mættu sumir hverjir að ósekju fá tækifæri með meistaraflokki félagsins. Þó ekki væri nema að kíkja á nokkrar æfingar hjá þeim til að byrja með. Eins og staðan er í dag eru einungis 5 leikmenn 2. flokks sem hafa verið á æfingum meistaraflokks og spilað einhverjar mínútur á undirbúningstímabilinu með þeim. Þess má geta að 10 leikmenn 2. flokks eru samningsbundnir Fram.
Það ætti vera metnaður Framara að búa til góða knattspyrnumenn upp úr barna- og unglingastarfi félagsins, sem eiga seinna möguleika á því að spila fyrir félagið í meistaraflokki – eða vera seldir til annara liða með góðum hagnaði fyrir Fram. Nú er lag, þar sem hópurinn sem er að koma upp hefur ekki verið svona öflugur í mörg ár. Stjórn knattspyrnudeildar og þjálfari meistaraflokks eru beðin um að taka þessa athugasemdir til greina. Áður en háum fjárhæðum er varið í leikmenn annarsstaðar frá sem hafa ekki skilað miklu fyrir félagið fram að þessu í leikjum á undirbúningstímabili liðsins.

Með Fram kveðju,
P. Scholes

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0