Stelpurnar okkar í handboltanum héldu til eyja í dag en þar mættu þær eyjastúlkum í öðrum leik liðanna í 8 liða úrsltum. Við vorum upp við vegg eftir tap á heimavelli á miðvikudag því var ekkert í boði annað en að vinna þennan leik. Það var vel mætt í eyjum, slatti af okkar fólki sem er glæsilegt, góð stemming í húsinu og alltaf gaman að spila í eyjum.
Leikurinn byrjaði ágætlega, mikið skorað en fátt um varnir. Varnarleikur okkar ekki góður fyrstu mín. leiksins við alltof passívar sem gaf færi á skotum af stuttu færi. Staðan eftir 10 mín 6-6. Við náðum ekki að bæta varnarleikinn fyrr en eftir c.a 15 mín. og þá fórum við að slíta okkur frá eyjastelpunum. Staðan eftir 20 mín. 9-11. Við náðum svo jafnt og þétt að bæta við mörkum fyrir hálfleik, vörnin hélt mun betur og það er lykillinn að því að vinna leiki. Staðan í hálfleik 11-15. Síðari hluti hálfleiksins mun betri og við að sýna okkar rétta andlit.
Síðari hálfleikur byrjaði illa, við algjörlega á hælunum, sóknarlega gekk ekkert og við settu eitt mark á fyrstu 10 mín. síðari hálfleiks. Guðrún hreinlega hélt okkur inni í leiknum. Staðan eftir 40 mín. 14-16. Eins og við værum hreinlega hættar ! Við spiluðum svo sem ekki mikið betur næstu mínútur, sóknarleikurinn alveg lamaður og það var ekki fyrr en Ragnheiður tók sig til og fór að skjóta að hún setti tvo mörk en enginn annar að gera neitt sóknarlega. Vörnin þó að standa vel ásamt því að Guðrún var vel á verði, 16-18 eftir 50 mín. Við búnar að gera 3 mörk á 20 mín. sem er skelfilegt. Ragnheiður tók svo aðra syrpu og setti nokkur mörk og það má segja að það hafi dugað. Sóknarleikur okkar hreinlega slakur í þessum hálfleik og eitthvað sem við þurfum að laga. Varnarlega réðum við vel við leikinn og markvarslan fín. Við náðum að landa mikilvægum sigri og það er það sem skiptir máli, lokatölur 19-23.
Við lékum ekkert glimrandi vel í þessum leik, vörnin var góð í 45 mín, sóknarlega vorum við í góðu lagi í fyrri hálfleik en síðari hálfleikur ekki góður og þar þurfum við að fá framlag frá fleirum. Markvarslan í leiknum góð, Guðrún og Hafdís að standa sig vel.
Þetta þýðir að það verður oddaleikur í Safamýrinni á mánudag kl. 18:00, þar verður aftur allt undir og væntanlega hrikaleg stemming. Hvet FRAMarar til að mæta í FRAMhúsið á mánudag og styðja stelpurnar okkar. Vel gert stelpur og sjáumst á mánudag.
ÁFRAM FRAM