Strákarnir okkar í handboltanum mættu í dag Hlíðarenda drengjum í öðrum leik liðanna í 8 liða úrslitum Olísdeildarinnar. Að þessu sinni var leikið í Safamýrinni og var ágætlega mætt en ég hefði viljað sjá fleiri og mætta fyrr. Samt ekki hægt að kvarta undan stuðningi okkar fólks, flott stemming í húsinu og brjáluð stemming þegar á leikinn leið. FRAMarar þið eruð flottastir.
Leikurinn í dag var svakalegur frá upphafi til enda, þvílíkur leikur, segi ég og skrifa, tek algjörlega hattin ofan fyrir okkar leikmönnum í dag, þeir voru hrikalegir.
Leikurinn byrjaði kannski rólega ef hægt er að setja svo, það var lítið skorað en rólegur var hann ekki þvílík átök og barátta, allir að gefa allt sem þeir áttu og greinilegt að við ættluðum ekki að gefa neitt. Staðan eftir 10 mín. 2-2, magnað. Leikurinn var hreint ótrúlegur, varnarleikur liðanna var mjög góður og liðin áttu í mesta basil með að skora, jafnt á öllum tölum, 5-5 eftir 20 mín. Magnað að upplifa svona leik þar sem liðin ná að halda svona svaka vinnslu í heilan hálfleik, allir leikmenn að berjast á fullu í 30 mín. Staðan í hálfleik 7-7. Hvað er hægt að segja, hrikalegur leikur og spenna fyrir þeim síðari.
Seinni hálfleikur byrjaði svipað en við aðeins á hælunum, við spilum á fáum leikmönnum og kannski smá þreyta í mannskapnum eftir hlé. Við misstum þá aðeins fram úr okkur en gáfum ekki mikið eftir, staðan eftir 40 mín. 9-11. Við aðeins að elta en mér fannst við vera að komast í gang, svakaleg einbeitingi í liðinu. Það kom á daginn við keyrðum heldur upp hraðan og settum góða pressu á Hlíðarendaliðið, staðan eftir 50 mín. 16-15. Virkilega flottur kafli hjá strákunum. Það var því ljóst að lokakafli leiksins yrði eitthvað og hann var það svo sannarlega, bara ekki hægt að skrifa um það allt. Valur komst yfir þegar 12 sek. voru eftir, við tókum leikhlé og úr frábærlega vel útfærðri sókn skoraði Stefán Baldivin mark á loka sekúndu leiksins. Lokatölur 21-21, æðislegt að ná að kvitta fyrir síðasta leik, framlengt.
Gríðarlega skemmtilegur leikur og vel tekist á en mjög heiðarlega.
Við byrjuðum framlenginguna vel, komumst tvo yfir en jafnt eftir 65 mín. 23-23. Svakaleg stemming í húsinu og ekki mögulegt að sitja. Við héldum áfram frumkvæðinu og komust aftur yfir tvö mörk og það dugði í dag. Þegar tíminn er svona lítill þá skiptir öllu að hafa frumkvæðið því það setur pressu á andstæðinginn og þá gera men mistök. Gríðarlega flottur FRAM sigur á heimavelli í dag. Lokatölur í dag 26-25. Algjörlega frábært að brotna ekki eftir síðasta leik, koma svona svakalega sterkir tilbaka segir allt sem segja þarf um strákana okkar í kvöld, þeir voru frábærir allir sem einn. Leikmenn sem komu inn skiluðu allir sínu og þó þeir settu bara eitt mark eða redduðu einni vörn þá var það mikilvægt í kvöld. Dómarar leiksins fá hrós frá mér fyrir að halda út en þeir dæmdu vel í dag og voru samkvæmir sjálfum sér allan leikinn.
Við þurfum á öllum okkar leikmönnum að halda í úrslitaleiknum gegn Val á þriðjudag en þar ráðast úrslitin þó leikið verði fram á nótt. Strákarnir okkar voru frábærir í dag og þurfa að vera það aftur í næsta leik. Hvet alla FRAMarar til að mæta að Hlíðarenda og styðja FRAM til sigurs. Strákarnir ætla að gefa allt, hvað gerir þú FRAMari góður ? Sjáumst á þriðjudag kl. 19:30.
ÁFRAM FRAM
P.s það koma myndir úr leiknum á eftir http://frammyndir.123.is/pictures/ kíktu við.