Grunnskólamót höfuðborga Norðurlanda var haldið í Helsinki á dagana 23-27. maí. Fyrir hverja borg keppti 41 nemandi, 14 ára og yngri, í knattspyrnu drengja, handknattleik stúlkna og frjálsum íþróttum drengja og stúlkna. Reykvísku ungmennin stóðu sig einstaklega vel á mótinu í ár og voru sér og sínum til sóma innan vallar sem utan.
Lið Reykjavíkur vann mótið í knattspyrnu drengja. Þeir sigruðu lið Kaupmannahafnar 3-0, Osló 2-1, Stokkhólm 7-2 og Helsinki 12-0. Þetta er þriðja árið í röð sem lið Reykjavíkur sigrar í knattspyrnu drengja á þessu móti. Við FRAMarar áttum fjóra fulltrúa í liðinu og er óhætt að segja að þeir Ástþór Atli Svalason, Gylfi Már Hrafnsson, Mikael Egill Ellertsson og Steinar Bjarnason hafi staðið sig sérlega vel og verið félagi sínu til mikils sóma.
Í handknattleik stúlkna varð lið Reykjavíkur í öðru sæti. Þær sigruðu Helsinki 23-10, Stokkhólm 11-10 og Kaupmannahöfn 12-11 en biðu lægri hlut fyrir sigurvegurum mótsins liði Osló 11-25. Þetta er besti árangur sem Reykjavík hefur náð í handknattleik á þessu móti og mikil gleði hjá hópnum með niðurstöðuna. Góður fulltrúi okkar FRAMara í handknattleiksliðinu var Daðey Ásta Hálfdánardóttir og stóðu hún og stöllur hennar sig með mikilli prýði.