fbpx
FRAMhús vefur

Hörður Einarsson „Kastró“ – kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram

KastróHörður Einarsson „Kastró“ – F. 18. júlí 1940.
D. 9. júlí 2016.

* Útför Harðar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, mánudaginn 18. júlí 2016, kl. 13.00.

Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram

Við fráfall Harðar Einarsson (Hörður Kastró) sér Knattspyrnufélagið Fram á bak góðum félaga.
Það rann blátt blóð um æðar Harðar sem unnu félagi sínu mikið. Ekki er kastað rýrð á neinn, þegar haldið er fram að Hörður „Kastró“ hafi verið stuðningsmaður Fram númer EITT! – sannkallaður heiðursfélagi. Hörður var vakinn og sofinn yfir velgengni félagsins og fylgdist vel með félagi sínu. Það var alltaf hægt að leita til hans – hann hafði mikið innsæi inn í mál sem skipti Fram máli. Hörður var alltaf sjálfum sér samkvæmur – hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum og lét þær umbúðalaust í ljós. Það var gaman að ræða við Hörð, sem var einn af þeim persónuleikum sem lífguðu upp á lífið og tilveruna. Hörður, sem var ákveðinn, var fyrst og fremst drengur góður – með góða nærveru.
Á gullárum Fram í handknattleik 1961-1970 og síðan á síðari gullárum knattspyrnunnar 1986-1990 vissu menn eftir leiki að Fram hafði farið með sigur af hólmi, en þá söng Hörður oft lagið góðkunna Nótt í Moskvu, en það var nokkuð oft sem hann söng lagið á þessum tímabilum.

Hörður Kastró hafi á árum áður fastan samastað á leikjum Fram á Laugardalsvellinum – á móti stúkunni, þar sem hópuðust í kringum hann aðrir góðir Framarar til að hvetja sína menn til dáða. Þaðan heyrðust oft ótrúlega hnyttinn og fyndin hróp inn á völlinn. Hópurinn fékk nafnið „Kastró-gengið“.

Harðar verður sárt saknað á Getraunamorgnum á laugardögum í Safamýrinni, þar sem hann hefur ekki látið sig vanta í áratugi. Hörður lék þar stórt hlutverk og hafði sínar skoðanir á – hvernig ætti að fylla út getraunakerfi. Var mjög hrifinn af tvítryggingunni 1 2 á leiki, sem var kölluð „klofið“.

Einnig á súpudögum Fram, en Hörður átti heiðurinn af því að Framarar á öllum aldri komu saman í Framheimilinu síðasta föstudag í hverjum mánuði frá september fram til loka maí. „Súpuhádegi Fram“ er hans hugmynd. Hann taldi löngu vera tímabært að skapa vettvang í félagsheimili Fram við Safamýri fyrir eldri og yngri Framara til að hittast reglulega og eiga góða stund saman. Þá mætti Hörður á hverjum fimmtudagsmorgni í Kastró-kaffi í Framheimilinu, þar sem oft urðu fjörugar umræður og menn skiptust á skoðunum.

Hörður lét sig sjaldan vanta í Framheimilið á góðum stundum, þó svo að hann hafi vegna veikinda hætt að keyra bifreið og var orðinn slæmur til gangs. Hann kom á sinni „skutlu“ – og lét slæma færð: snjó, hálku og vetrarvinda ekki stöðva sig.

Hörður var sæmdur silfurkrossi FRAM á 105 ára afmæli Knattspyrnufélagsins FRAM árið 2013.

Knattspyrnufélagið Fram kveður heiðursmanninn Hörð Einarsson, á afmælisdegi hans, með mikilli hlýju og þakkar honum fyrir ómetanlegan þátt í sögu félagsins. Ættingjum hans eru sendar hugheilar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Fram,

Sigmundur Ó. Steinarsson.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!