Stelpurnar okkar í fótboltanum léku í kvöld á heimavelli í Safamýrinni gegn HK/Víkingi. Það er orðið lagt síðan stelpurnar spiluðu í Safamýrinni og því gaman að fá þær loksins í okkar gamla vígi. Fyrri leikur þessara liða fór ekki vel og HK/Víkingur ekki búið að tapa nema einum leik í sumar. Því var ljóst að þessi leikur yrði erfiður en við höfum samt verið að spila betur og betur með hverjum leik í sumar.
Leikurinn í kvöld var erfiður eins og við vissum, andstæðingur lá dálítð á okkur en við börðumst eins og einn maður í kvöld. Þrátt fyrir að liggja mikið tilbaka þá náðum við að spila vel, varnarleikur okkar í fyrri hálfleik algjörlega til fyrirmyndar. Héldum skipulaginu í vörninn upp á tíu og þær náðum bara ekki að skapa sér góð færi. Við settum svo mark á 45 mín. þegar Birna Sif Kristinsdóttir tók aukaspyrnu á miðjum vallar helmingi HK/Víkings sendi háan bolta inn á teiginn sem skrúfaðist svona líka skemmtilega niður í hornið. Glæsilegt mark og við yfir í hálfleik 1-0. Gríðarlega mikilvægt að fá mark, svona rétt fyrir hálfleik og það hafa örugglega allir skoðun á því hvort staðan í hálfleik hafi verið sanngjörn. Það var því ljóst að síðari hálfleikur yrði mikil prófraun á okkar karakter.
Síðari hálfleikur var skemmtilegur, við gerðum okkur greinilega vel grein fyrir því að andstæðingurinn myndi sækja stíft en við héldum okkar varnarplani gríðarlega vel. Varnarleikur okkar til fyrirmyndar, það gaf okkur líka færi á því að sækja hratt og við fengum ágæt færi til að setja annað mark en það tókst ekki. Til að gera langa sögu stutta, þá kláruðum við þennan leik og unnum sannkallaðan vinnusigur í kvöld. Lokatölur 1-0.
Það var frábært að horfa á liðið spila saman sem einn maður og þegar við smellum svona saman þá er hægt að ná góðum úrslitum. Liðið fær hrós fyrir mikla vinnusemi í kvöld, góða baráttu og að halda skipulaginu allan leikinn. Frábær sigur sem hlýtur að gefa okkur “búst” fyrir þá leiki sem eftir eru í sumar. Vel gert stelpur.
Næsti leikur er eftir rúma viku en þá mætum við ÍR í Breiðholtinu, sjáumst þá.
ÁFRAM FRAM