Stelpurnar okkar í fótboltanum mættu toppliði ÍR í 1. deild kvenna í Breiðholtinu í kvöld. Það var blíða í bænum eins og venjulega en ljóst að við værum að fara að mæta sterku liði því þær voru taplausar í sumar.
Leikurinn byrjaði ágætlega í dag, jafnræði með liðunum og kraftur í báðum liðum. Við misstum svo aðeins frumkvæðið og fengum á okkur tvö mörk á stuttum tíma á 27 mín. og 35 mín. Bæði mörkin komu eftir hörkuskot utan af velli, annað sem small í slánni og það síðara eftir markvörslu en í báðum tilvikum náðu þær frákastinu og skoruðu. Við þurftum smá tíma til að jafna okkur eftir þessi mörk og náðum ekki að skora fyrir hlé. Staðan í hálfleik 2-0.
Við mættum gríðarlega grimmar til leiks eftir hlé sóttum töluvert , áttum nokkur fín færi og í einu eða tveimur hefðum átt að skora. Við vorum bara hörkuflottar í síðari hálfleiknum en eins og oft í sumar þá var okkur bara ekki ætlað að skora. Frekar súrt því við vorum að spila vel og hefðum kannski átt skilið að fá meira úr þessu leik. Lokatölur 2-0.
Stelpurnar geta verið stoltar af frammistöðunni í þessum leik, góð barátta og kraftur í liðinu, liðið alltaf að verða þéttara og betra.
Næsti leikur er á heimavelli í Safamýrinni eftir tæpa viku þá gegn Hvíta Riddaranum, sjáumst þá.
ÁFRAM FRAM